Meintur morðingi hálfbróður Kims látinn laus

Siti Aisyah, sem ákærð hafði verið fyrir morðið á Kim …
Siti Aisyah, sem ákærð hafði verið fyrir morðið á Kim Jong-nam, yfirgefur hér dómsalinn í Kuala Lumpur eftir að fallið var frá ákæru á hendur henni. AFP

Indónesísk kona sem sökuð var um að hafa myrt Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu, hefur verið látin laus úr haldi eftir að ákærur gegn henni voru felldar niður. BBC greinir frá.

Konan, Siti Aisyah, hafði verið ákærð fyrir að hafa borið taugaeitrið VX í andlit Kims á flugvellinum í Kuala Lumpur árið 2017.

Aisyah og víetnömsk kona, Doan Thi Huong, sem var ákærð fyrir sama glæp, höfðu lýst sig saklausar af morðákæru og sögðust hafa haldið að þær væru að taka þátt í sjónvarpshrekk.

Morðið vakti mikla athygli á sínum tíma vegna þeirrar fífldirfsku sem það bar vitni um og hafa lög­menn Aisyah og Huong halda því fram að kon­urn­ar hafi verið gabbaðar af yf­ir­völd­um í Norður-Kór­eu. Fjór­ir norðurkór­esk­ir út­send­ar­ar voru einnig ákærðir vegna máls­ins.

Aisyah hefði getað átt dauðadóm yfir höfði sér hefði hún verið fundin sek um morð.

Doan Thi Huong, meintur samverkamaður Aisyah, er hér leidd út …
Doan Thi Huong, meintur samverkamaður Aisyah, er hér leidd út úr dómsalnum í fylgd lögreglumanna. Ákæran gegn henni hefur ekki verið felld niður. AFP

Saksóknari tilkynnti hins vegar í dag að ákveðið hefði verið að falla frá morðákærunni, en greindi ekki frá ástæðunni. Dómari samþykkti ákvörðun saksóknara, að því er AFP-fréttaveitan greinir frá. BBC segir þessa ákvörðun dómara þó ekki jafngilda sýknu.

„Ég er ánægð. Ég vissi ekki að þetta myndi gerast og átti ekki von á því,“ hefur AFP eftir Aisyah er hún yfirgaf dómsalinn.

BBC segir að svo virðist sem sannanir gegn Aisyah hafi verið veikari en gegn Huong, meintum samverkamanni hennar. Ákæran gegn Huong hefur ekki verið felld niður, en máli hennar hefur nú verið frestað að beiðni lögfræðinga hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert