Örvænting íbúa vegna rafmagnsleysis vex

Skólar og fyrirtæki í Venesúela voru áfram lokuð í dag að fyrirskipan stjórnvalda, en víða var enn rafmagnslaust í landinu, fimmta daginn í röð.

Stjórnarandstaðan segir að rekja megi dauða 17 manns til rafmagnsleysisins og sagði Juan Guaidó, þingforseti og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, að stjórn Nicolasar Maduro, forseta Venesúela, hafi „myrt“ fólkið. CNN segir Guadió hafa fullyrt í gær að enn væri algjört rafmagnsleysi í 16 fylkjum, en rafmagn sé komið á að hluta í sex fylkjum. Þá nemi tap fyrirtækja í landinu vegna rafmagnsleysisins  að minnsta kosti 400 milljónum Bandaríkjadala.

Rafmagn fór af um 70% Venesúela undir lok síðustu viku og vöruðu yfirvöld þá við hættunni sem sjúkrahúsum í landinu stafaði af rafmagnsleysinu.

BBC segir hverja stund sem rafmagn kemst ekki á vera íbúum landsins erfiða og auki á ringulreið og streitu íbúa, sem þegar eigi í erfiðleikum vegna efnahagskreppu undanfarinna ára.

Hópar, svonefndir „colectivos“, sem eru hliðhollir Maduro forseta aka um á mótorhjólum í myrkrinu og beita byssum til að þvinga á frið á götum úti, en fréttir hafa m.a. borist af gripdeildum í verslunum.

BBC segir ljóst að rafmagnsleysið komi illa við þann mikla fjölda íbúa Venesúela sem barist hefur í bökkum vegna vöruskorts og óðaverðbólgu. Nú bætist við ekkert netsamband, farsímar virki ekki, né heldur hraðbankar, loftkælingin eða þau eldhústæki sem ganga fyrir rafmagni.

Kortaposar virka ekki, búðir heimta dollara

„Ég á tveggja ára son og í gærkvöldi áttum við ekkert að borða,“ segir Majorie, kona sem BBC ræddi við framan við matvöruverslun í Caracas. Nágrannarnir gáfu henni skammt af soðnum hrísgrjónum sem hún maukaði, bætti sykri við og gaf barninu. „Þegar hann biður mig um mat í dag, hvað á ég þá að gefa honum?“ spurði hún og bak við hana mátti sjá hóp örvæntingarfullra mæðra berja á hurðir matvöruverslunarinnar.

Inni í búðinni virkuðu hvorki kortaposar né búðarkassi og tók starfsfólk bara við greiðslu í bandarískum dollurum. „Við notum ekki dollara í þessu landi, við fáum ekki greitt í dollurum heldur bólivörum,“ sagði Marjorie og örvæntingin leyndi sér ekki.

„Við viljum ekki ræna verslanir. Við viljum ekki valda vandræðum, það sem við viljum er matur. Við erum svöng.“

Halda lífi í börnunum með handafli

Vandamálin sem blasa við starfsfólki sjúkrahúsa eru ekki síður alvarleg. „Á fimmtudag vissi enginn af hverju neyðarrafstöðin fór ekki í gang, hvað var að gerast eða af hverju enn var myrkur á bráðadeildinni,“ segir Patricia sem vinnur á tilraunastofu barnaspítala í Caracas. Patricia er ekki hennar rétta nafn, þar sem hún óttast að lenda  í vanda fyrir að tjá sig, og segir hún starfsfólk á bráðadeildinni halda börnum á lífi með því að beita handafli. „Þegar við komum inn á deildina heyrðum við móður gráta.“ Þau hafi síðar frétt að nokkurra mánaða gamalt barn hefði dáið og svo hefði ungabarn á nýburadeildinni látist síðar um nóttina þrátt fyrir tilraunir starfsmanna.

Fyrir rest var loks komið með nýjan rafal á deildina og voru það óttaslegnir liðsmenn colectivos sem gerðu það, ekki embættismenn stjórnarinnar.

Sonur Maríu Errazo var myrtur í einu fátækrahverfanna þegar rafmagnið fór fyrst af. Síðan hefur lík hans legið í líkhúsinu og þar sem flestar ríkisstofnanir hafa verið lokaðar síðan þá hefur hún ekki getað fengið pappírana sem hún þarf til að fá að sjá lík sonar síns, hvað þá fengið að grafa hann. Þar sem netið virkar ekki heldur hjá þeim fáu ríkisstofnunum sem eru opnar hefur hún raunar ekki heldur fengið staðfestingu á láti hans.

Jafnvel þótt hún fengi að taka son sinn með sér heim hefur Errazo ekki heldur efni á að grafa hann. Óðaverðbólgan er slík að sparnaður hennar er að engu orðinn. „Við eigum engan pening,“ segir hún. Þess utan eru bankarnir lokaðir og farsímasamband hér um bil ekkert. „Ég get ekki einu sinni reynt að hringja eitthvað til að finna lausn á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert