Sló met fyrir hraðasta róður yfir Atlantshaf

Lee Spencer í báti sínum. Hann bætti metið um heila …
Lee Spencer í báti sínum. Hann bætti metið um heila 36 daga. Ljósmynd/Facebook-síða Lee Spencer

Einfættur breskur ræðari sló í dag metið fyrir hraðasta róður einstaklings yfir Atlantshafið. Maðurinn, Lee Spencer, sem er fyrrverandi landgönguliði, var tvo mánuði á leiðinni og er hann fyrsti fatlaði einstaklingurinn sem rær þessa leið einn síns liðs.

Spencer lagði af stað frá Portimao í Portúgal 9. janúar sl., en neyddist svo til að stoppa í nokkra daga í Las Palmas á Kanaríeyjum eftir að siglingabúnaður hans bilaði. Hann hélt svo áfram för á sérhönnuðum báti sínum sem bar hið viðeigandi nafn Hope, eða Von. Spencer kom svo að landi í Frönsku-Gíneu snemma í morgun og hefur enginn ræðari farið þessa leið á skemmri tíma einn síns liðs.

Bætti metið um 36 daga

Norðmaðurinn Stein Hoff var fyrstur til að róa einn frá Evrópu til Suður-Ameríku. Hann reri árið 2002 frá Portúgal til Gíneu á 109 dögum, 12 klukkustundum og níu mínútum. Hoff átti raunar líka metið sem Spencer var nú að slá, en hann fór ferðina aftur og að þessu sinni á 96 dögum, 12 klukkustundum og 45 mínútum.

„Hann er fjandakornið búinn að gera þetta!“ hljómaði tilkynningin á Twitter-síðu Spencers í morgun. „Lee er búinn að bæta met fullhraustra (e. able-bodied) fyrir róður einstaklings frá meginlandi Evrópu til Suður-Ameríku um heila 36 daga,“ sagði í færslunni.

Spencer var landgönguliði í 24 ár og fór m.a. í þrjár ferðir til Afganistan. Fótinn missti hann hins vegar eftir að hann sneri aftur heim árið 2014, en hann varð fyrir braki er hann var að hjálpa fórnarlambi umferðarslyss á hraðbraut.

Vonast til að breyta viðhorfi til fötlunar

Þetta var ekki fyrsti róður Spencers yfir Atlantshafið, því hann reri þá leið líka árið 2016 og þá í félagi við þrjá aðra hermenn sem allir áttu líka við fötlun að stríða, en samanlagt höfðu þeir ekki nema þrjá fætur.

Áður en hann lagði af stað sagðist Spencer vona að för hans breytti viðhorfum fólks til fötlunar, sem og að sér tækist að safna fé fyrir góðgerðarfélag landgönguliða, Royal Marines Charity, og Endeavour-sjóðinn sem styður breskra hermenn í bataferli þeirra.

„Ef fatlaður maður getur farið og rústað meti fullfrískra í íþrótt sem er eins líkamleg og róður er það meiri háttar yfirlýsing. Það er það sem þetta allt saman snýst um,“ sagði Spencer áður en hann lagði af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert