Spjótin beinast að vélinni - ekki flugfélaginu

Allir sem voru um borð í flugvélinni létust í slysinu.
Allir sem voru um borð í flugvélinni létust í slysinu. AFP

Frá því Ethiopian Airlines varð til árið 1945 með aðkomu bandaríska flugfélagsins Trans World Airlines, hefur það vaxið og orðið eitt af leiðandi flugfélögum Afríku. Ein af farþegaþotum þess hrapaði í Eþíópíu í gær með með hörmulegu afleiðingum að allir um borð, 157 talsins, létust.

Ethiopian Airlines er í ríkiseigu. Á síðustu árum hefur vöxturinn verið sérlega mikill og er félagið nú stærra en Kenya Airways og South African Airways með tilliti til tekna og hagnaðar. 

Vöxturinn varð hraður frá árinu 2010 er flugfélagið markaði sér þá stefnu að tvöfalda flugvélaflota sinn á fimmtán árum. Stefnt var að því að vélarnar yrðu 120 árið 2025 en í fyrra voru þau áform uppfærð og stefnt að minnsta kosti 150 vélum það ár.

Í fyrra taldi flotinn 108 vélar og voru áfangastaðirnir orðnir 113.

Öryggismál hafa samhliða verið tekin fastari tökum og í fyrra gaf Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) það út að engin banaslys hefur tengst vélum flugfélagsins á tveggja ára tímabili. 

Á heildina litið hefur Ethiopian Airlines gott orðspor hvað öryggismál varðar og hefur verið talið eitt öruggasta flugfélag Afríku. Nokkur alvarleg slys má þó finna í áratugalangri sögu þess.

Árið 2010 hrapaði flugvél félagsins í hafið skömmu eftir flugtak frá Líbanon. Sú vél var af gerðinni Boeing 737-800. 83 farþegar létust og sjö úr áhöfn.

Fjórtán árum áður, árið 1996, var einni farþegavél félagsins rænt. 125 létust er vélin varð eldsneytislaus og hrapaði í nágrenni Comoros-eyja.

Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, tilkynnti nýverið að fyrirtækið yrði sett á markað og vildi með því reyna að laða erlenda fjárfesta að því. 

Frá árinu 2010, þegar félagið greindi frá áformum sínum um mikinn vöxt næstu árin, hafa tekjur þess sem og hagnaður aukist ár frá ári.

Í fyrra fjölgaði farþegum um 18% frá fyrra ári og voru um níu milljónir.

Flugmálasérfræðingurinn Alex Macheras segir í samtali við Aljazeera að í kjölfar flugslyssins í gær hafi flestir beint sjónum sínum að öryggi vélarinnar sjálfrar frekar en öryggismálum flugfélagsins almennt. „Ethiopian Airlines er eitt af öruggustu flugfélögum Afríku. Þeir eru með mikið net áfangastaða og virðing er borin fyrir því á alþjóðavísu þegar kemur að öryggismálum. Það er ástæðan fyrir því að því er leyft að fljúga til áfangastaða um allan heim.“

Hann bendir á að vélin sem hrapaði hafi verið af gerðinni Boeing 737 MAX sem sé nýjasta vél flugvélaframleiðandans þekkta. Vél af sömu tegund hafi hrapað í Indónesíu fyrir aðeins fimm mánuðum. Sú vél hrapaði einnig skömmu eftir flugtak. Í því slysi létust 189. „Ef það er skjálfti í mönnum um heimsbyggðina [eftir slysið] er hann meira vegna flugvélarinnar en flugfélagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert