Staðreyndir um Boeing 737 Max 8

Vél frá Air China sem er sömu gerðar og vél ...
Vél frá Air China sem er sömu gerðar og vél Ethiopian Airways sem hrapaði í gær. AFP

Flugvél Ethiopian Airlines sem hrapaði í gær er sömu gerðar og vél Lion Air sem hrapaði við Indónesíu í október á síðasta ári. Að minnsta kosti nítján flugfélög, þar af þrettán kínversk, hafa kyrrsett vélar sömu gerðar vegna flugslyssins.

Hér má lesa nokkrar staðreyndir um þessa flugvél.

Boeing 737 Max 8 er ný af nálinni, fyrstu flugfélögin tóku hana í notkun árið 2017. Vél Lion Air sem hrapaði fyrir fimm mánuðum hafði verið í notkun í innan við þrjá mánuði. Vél Ethiopian Airlines, sem hrapaði í gær, var tekin í notkun í október á síðasta ári.

Flugvélasérfræðingurinn Gerry Soejatman segir í samtali við BBC að hreyflar 737 Max séu „aðeins framar og aðeins hærra með tilliti til vængjanna en á fyrri gerð vélarinnar. Það hefur áhrif á jafnvægi vélarinnar.“

AFP

Rannsóknarnefnd flugslysa í Indónesíu telur að vél Lion Air hafi fengið röng skilaboð frá skynjurum vélarinnar sem eiga að vara flugmenn við ef vélin er að ofrísa. Rannsókn á slysinu er enn ekki lokið. 

Skynjararnir og hugbúnaður sem þeir tengjast eru öðruvísi en þeir sem finna má í eldri gerðum vélarinnar. Hins vegar höfðu flugmenn ekki verið upplýstir um það, segir í samantekt BBC. Boeing sendi í kjölfar Lion Air-slyssins út upplýsingar til flugfélaga um málið.

Bandarísk flugmálayfirvöld sendu svo út neyðartilkynningu til bandarískra flugfélaga vegna skynjaranna. Í henni kom fram að þessi breytta virkni skynjaranna gæti orðið til þess að flugmenn ættu erfitt með að stýra flugvélinni, að hún tæki dýfu, missti mikla hæð og „mögulega“ hrapaði. Var forráðamönnum bandarískra flugfélaga gert að uppfæra leiðbeiningar sínar til áhafna vélanna með tilliti til þessa. 

Sögðu bandarísk flugmálayfirvöld að þau hefðu komið þessum upplýsingum áfram til annarra sambærilegra yfirvalda. Var vonast til þess að þau myndu svo koma þessum upplýsingum áfram til flugfélaga sem aftur uppfræddu flugmenn sína um málið.

Heimildarmenn BBC segja því „næstum fullvíst“ að flugmenn Ethiopian Airlines hafi fengið þessar upplýsingar um skynjarana.

Enn hefur ekki verið staðfest að hrap vélar eþíópíska flugfélagsins megi rekja til skynjaranna.

„Athyglin mun vera á þá staðreynd að vélin var mjög nýleg, sömu gerðar og í Lion Air-slysinu og [hrapið] varð á svipuðum tímapunkti [frá flugtaki],“ segir John Strickland flugmálasérfræðingur við BBC.

Boeing 737 Max er sú flugvél sem hraðast hefur selst í sögu flugvélaframleiðandans. Um hundrað aðilar hafa samtals pantað yfir 4.500 vélar af tegundinni. Um 350 hafa þegar verið afhentar.

Hér má lesa umfjöllun Morgunblaðsins um vélarnar frá því haustið 2017.

mbl.is