Tugir góðra hjarta hættir að slá

Kenískir fjölmiðlar eru fullir af frásögnum af fórnarlömbum flugslyssins í …
Kenískir fjölmiðlar eru fullir af frásögnum af fórnarlömbum flugslyssins í Eþíópíu. Skjáskot/The Standard

Þeir unnu að margvíslegum mannúðarmálum, fjölbreyttu hjálparstarfi, fyrir konur, börn og flóttamenn. Margir voru starfsmenn stofnana Sameinuðu þjóðanna, aðrir unnu fyrir frjáls félagasamtök. Einhverjir höfðu stofnað sín eigin samtök til að vinna að jafnrétti og friði.

Stór hluti farþeganna sem fórust í flugslysinu í Eþíópíu í gær hafði látið sig þá sem minna mega sín miklu varða, helgað líf sitt baráttunni fyrir betri heimi. Hópur þeirra var á leið á umhverfisþing, aðrir á ráðstefnu um menningarminjar. 

Allir sem voru um borð í vél Ethiopian Airlines, 157 talsins, létust í slysinu. Vélin var af gerðinni Boeing 737MAX-8. Hún var á leið frá Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, til Naíróbí, höfuðborgar Kenía, er hún hrapaði, aðeins örfáum mínútum eftir flugtak. Forstjóri flugfélagsins segir að vélin hafi undirgengist hefðbundna viðhaldsskoðun 4. febrúar og fréttamiðlar í Kenía segja að bæði flugstjórinn og aðstoðarflugstjórinn sem sátu í flugstjórnarklefa vélarinnar er hún hrapaði hafi verið nokkuð reynslumiklir flugmenn. 

Greinin heldur áfram fyrir neðan kortið.

AFP

Farþegarnir voru af 35 þjóðernum, flestir frá Kenía eða 32. Átján voru Kanadamenn, níu frá Eþíópíu og sömuleiðis níu frá Frakklandi. 

Óvenjumargir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna eða nítján voru um borð í vélinni en í borgunum Addis Ababa og Naíróbí má finna skrifstofur stofnunarinnar. Voru þeir margir hverjir á leið á umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna sem fram átti að fara í dag. Enn hafa nöfn allra farþeganna ekki verið gefin upp. Vitað er að um borð voru nokkur börn, m.a. ein fimm ára gömul stúlka sem var á leið í heimsókn til ættingja í Naíróbí.

Ástvinir og samstarfsmenn nokkurra farþeganna hafa minnst þeirra opinberlega síðustu klukkustundir. Það hafa vinnufélagar Joönnu Toole, starfsmanns Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, m.a. gert. 

Pius Adesanni, prófessor við Carleton-háskóla í Ottawa, var líka á meðal fórnarlambanna. Hann var bæði kanadískur og nígerískur ríkisborgari sem hafði hlotið verðlaun fyrir skrif sín og rannsóknir um Afríku, m.a. fyrir bókina You’re Not a Country, Africa.

Cedric Asiavugwa, lögfræðinemi við Georgetown-háskólann í Bandaríkjunum, var einnig meðal farþeganna. Hann var á heimleið til Naíróbí. Asiavugwa vann við að aðstoða fólk á flótta og hafði stofnað samtök til að vernda konur og börn á flótta undan átökum í Sómalíu. „Með andláti hans hefur Georgetown misst framúrskarandi nemanda, góðan vin svo margra, og baráttumann fyrir jafnrétti í Austur-Afríku og um heiminn allan,“ sagði í yfirlýsingu frá Georgetown-háskóla.

Þrír þeirra bresku ríkisborgara sem fórust (f.v.): Sara Auffret, Joanna …
Þrír þeirra bresku ríkisborgara sem fórust (f.v.): Sara Auffret, Joanna Toole og Joseph Waithaka.

Tamirat Mulu Demessie vann fyrir mannúðarsamtökin Save the Children. Demessie helgaði krafta sína börnum sem orðið höfðu fyrir ofbeldi og vann að því að sameina fjölskyldur sem sundrast höfðu vegna átaka og hamfara. „Hann fórnaði oft tíma með eigin fjölskyldu og börnum til að vinna að mannúðarstörfum sínum,“ segir Lara Martin, vinur hans og fyrrverandi samstarfsmaður, í samtali við New York Times. „Hann hvatti alla sem unnu með honum til að gera meira fyrir börn og draga ódæðismenn til ábyrgðar.“

Paolo Dieci, stofnandi mannúðarsamtakanna International Committee for the Development of Peoples, var um borð, einnig Maria Pilar Buzetti og Virginia Chimenti, starfsmenn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og Sebastian Tusa, menningarmálaráðgjafi frá Sikiley, sem var á leið til Kenía á ráðstefnu UNESCO, Mennta- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Jonathan Seex, forstjóri Tamarind Group, sem á og rekur hótel og veitingastaði í Kenía, er einnig á meðal fórnarlambanna. 

Sara Auffret, sérfræðingur í ferðalögum um heimskautasvæði, var á leið til Naíróbí á umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna til að flytja erindi um plastmengun í hafinu. Hún var bæði franskur og breskur ríkisborgari.

Börn á meðal fórnarlambanna

Slóvakíski þingmaðurinn Anton Hrnko missti eiginkonu sína og tvö börn í slysinu. Þá voru hjónin Mwazo Jared Jabu og einkona hans, sem ekki hefur verið nafngreind, um borð. Þau láta eftir sig 15 mánaða gamalt barn.

Anthony Ngare, blaðamaður hjá dagblaðinu The Standard og ráðgjafi kenískra stjórnvalda í  eflingu fjölmiðlafrelsis, er á meðal þeirra sem fórust. Einnig Amina Ibrahim Odowaa, 33 ára, og fimm ára gömul dóttir hennar, Sofia. Mæðgurnar voru á leið í heimsókn til ættingja. Odowaa lætur eftir sig tvær dætur, þriggja og sjö ára. 

Tveir kennarar við Kenyatta-háskóla, Isaac Mwangi Minae og Agnes Kathumbi, voru um borð í vélinni sem og læknirinn Isabella Beryl Achie Jaboma.

Fréttir hafa einnig borist af þeim sem ætluðu að fljúga með vélinni en gerðu það ekki. Grikkinn Antonis Mavropoulos sagði frá því á Facebook-síðu sinni að gærdagurinn hefði verið hans „happadagur“. Hann hafði mætt of seint á flugvöllinn í Addis Ababa og misst af fluginu. „Ég var reiður því að enginn vildi hjálpa mér að komast að hliðinu í tíma,“ skrifaði hann. Mavropoulos vinnur fyrir félagasamtök og ætlaði að fljúga með vélinni til Naíróbí á umhverfisþingið, líkt og svo margir þeirra sem voru um borð.

Byggt á fréttum The Standard, The Daily Nation, New York Times, NRK o.fl.

mbl.is