Yfir 100 vélar kyrrsettar

Vél af gerðinni 737 MAX 8 við verksmiðjur Boeing í …
Vél af gerðinni 737 MAX 8 við verksmiðjur Boeing í Renton, Washington. AFP

Flugmálayfirvöld tveggja landa sem og tvö flugfélög hafa tekið ákvörðun um að kyrrsetja tímabundið vélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8 eftir flugslysið í Eþíópíu. Alls er vélum þessarar tegundar hjá nítján flugfélögum því ekki flogið í augnablikinu eða samtals yfir 100 vélum. Um 350 svona vélar hafa verið teknar í notkun á árunum 2017-2019 og er meirihluti þeirra því enn í notkun, m.a. hjá Icelandair.

Ethiopian Airlines kyrrsetti í kjölfar slyssins fjórar aðrar vélar sínar af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Ekki hefur verið ákveðið hvenær þær verða aftur teknar í gagnið. Segir félagið þetta gert til að gæta ýtrustu varúðar.

Cayman Airways hefur einnig ákveðið að kyrrsetja báðar vélar sínar af þessari gerð „þar til frekari upplýsingar berast,“ líkt og sagði í yfirlýsingu frá félaginu.

Tvær vélar af þessari tegund hafa nú með fimm mánaða millibili hrapað. Báðar voru þær nýjar og báðar hröpuðu þær skömmu eftir flugtak. Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til að ástæður slysanna séu þær sömu. 157 fórust í slysinu í Eþíópíu í gær og 189 er vél Lion Air fórst við Indónesíu í október.

Boeing mun taka þátt í rannsókninni á flugslysinu í Eþíópíu.
Boeing mun taka þátt í rannsókninni á flugslysinu í Eþíópíu. AFP

Flugmálayfirvöld tveggja landa, Kína og Indónesíu, hafa auk þess tímabundið kyrrsett allar vélar af tegundinni. 97 vélar voru kyrrsettar í Kína og í yfirlýsingu yfirvalda segir að engin áhætta sé tekin þegar öryggi sé annars vegar. 

Bresk flugmálayfirvöld segja að fimm Boeing 737 MAX 8 séu í notkun hjá flugfélögum þar í landi. Þá sjöttu átti að taka í notkun nú í vikunni. Í yfirlýsingu er bent á að bandarísk flugmálayfirvöld beri ábyrgð á vottun vélanna sem og evrópsk flugmálayfirvöld í Evrópu, þar með talið Bretlandi. 

Evrópsk flugmálayfirvöld (EASA) segjast fylgjast náið með gangi mála og að þau muni birta nýjustu upplýsingar á vef síðu sinni.

Í samantekt CNN eru einnig talin upp þau flugfélög sem enn eru að fljúga Boeing 737 MAX 8.

Þau eru:

American Airlines - 24 vélar.

Southwest Airlines - 34 vélar.

Norwegian Airlines - 18 vélar.

TUI Aviation - 15 vélar.

SilkAir - 6 vélar.

Fiji Airways - 2 vélar.

Icelandair - 3 vélar.

Flydubai - 11 vélar.

WestJet - 13 vélar.

mbl.is