MAX-vélar fá ekki að fljúga yfir Evrópu

Boeing 737 Max kemur inn til lendingar á flugsýningunni í …
Boeing 737 Max kemur inn til lendingar á flugsýningunni í Farnborough í Bretlandi síðastliðið sumar. Nú fá slíkar vélar ekki að fljúga í evrópskri lofthelgi. AFP

Flugmálaöryggisstofnun Evrópu (EASA) hefur tilkynnt að flugvélar af gerðinni Boeing MAX 8 og 9 fái ekki að fljúga um evrópska lofthelgi. Þetta var tilkynnt núna undir kvöld.

„EASA hefur ákveðið að stöðva alla flugstarfsemi þessara tveggja flugvélagerða,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar. Þar er einnig tekið fram að enn sé ekki vitað fyllilega fyrir víst hvað það var nákvæmlega sem varð til þess að vél Lion Air í Indónesíu hrapaði fyrir fimm mánuðum og að í ljósi þess að annað banvænt flugslys hafi orðið á sunnudag, í flugvél sömu gerðar, sé þessi ákvörðun tekin.

Of snemmt er að útiloka, að svipaðar ástæður hafi valdið báðum slysunum, samkvæmt tilkynningu EASA, sem AFP-fréttaveitan fjallar um.

Indverjar hafa sömuleiðis tekið ákvörðun um að kyrrsetja allar vélar af gerðinni Boeing 737 MAX þar til full vissa sé um öryggi þeirra. Indverska flugvélagið SpiceJet á 13 flugvélar af gerðinni 737 MAX 8, samkvæmt frétt AFP.

Icelandair á sem kunnugt er þrjár flugvélar af þessari sömu gerð og tók ákvörðun í dag um að kyrrsetja þær. Fram kom í máli Jens Þórðarsonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá flugfélaginu, í dag að Icelandair hefðu „sem fyrr fulla trú á þessum flugvélum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert