Norðmenn banna Boeing 737 MAX-8

Boeing 737 MAX 8-farþegaþota kemur inn til lendingar.
Boeing 737 MAX 8-farþegaþota kemur inn til lendingar. AFP

Flugmálayfirvöld í Noregi hafa ákveðið að banna tímabundið flugvéla af gerðinni Boeing 737 MAX-8 í norskri lofthelgi samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK og bætast Norðmenn þar með í hóp með meðal annars Bretum, Frökkum og Þjóðverjum. 

Fram kemur í fréttinni að ákvörðun norskra flugmálayfirvalda sé tekin í kjölfar ráðleggingar frá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA). Þessi ákvörðun var tekin síðdegis í dag en fram að því var afstaða yfirvalda í Noregi að engar upplýsingar hefðu borist sem gæfu tilefni til þess að íhuga að banna flugvélar af gerðinni Boeing 737 MAX-8 í norskri lofthelgi.

Hins vegar hafi það breyst eftir að EASA sendi frá sér ráðleggingar sínar eftir að hafa farið yfir gögn frá þeim ríkjum sem þegar höfðu tekið ákvörðun um að banna flug flugvéla af þessari gerð í sinni lofthelgi. Bannið kemur í kjölfar þess að Boeing 737 MAX-8-flugvél fórst um síðustu helgi skömmu eftir flugtak frá Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert