Kanada kyrrsetur MAX-þoturnar

Boeing 737 MAX-flugvél í eigu Air Canada við verksmiðjur Boeing …
Boeing 737 MAX-flugvél í eigu Air Canada við verksmiðjur Boeing í Renton í Bandaríkjunum. AFP

Yfirvöld í Kanada hafa kyrrsett allar flugvélar af gerðinni Boeing 737 Max 8 og 9 sem þarlend flugfélög hafa yfir að ráða og bannað flug véla af þeirri gerð í kanadískri lofthelgi, um óákveðinn tíma. Þetta var tilkynnt síðdegis í dag.

Marc Garneu, samgöngumálaráðherra Kanada, sagði við blaðamenn síðdegis að ákvörðun hans hefði verið tekin eftir að farið var yfir gögn frá gervihnöttum, sem gefa í skyn, að flugferill vélar Ethiopian Airlines, sem fórst á sunnudag, hefði verið svipaður og flugferill vélar Lion Air í Indónesíu, sem fórst í Indónesíu í október.

Út frá þessum gögnum, sem sérfræðingar yfirvalda hafa rýnt, er gripið til þessara ráðstafana í varúðarskyni, sagði samgönguráðherrann. Þær verða í gildi um óákveðinn tíma. Kanadísk flugfélög eiga alls 41 vél af gerðinni Boeing 737 MAX 8.

Bandarískir flugmenn hafa greint frá vandræðum

Bandarísk flugmálayfirvöld hafa hingað til ekki sagt neinn grundvöll vera fyrir því að kyrrsetja vélar af þessari gerð, en upp á yfirborðið hafa þó komið frásagnir fjögurra bandarískra flugmanna, sem skráðu fjögur sams konar atvik í óopinberri flugatvikaskrá sem NASA heldur utan um vestanhafs (Aviation Safety Reporting System), samkvæmt frétt AFP.

Allir greindu þeir frá því í fyrra, eftir að vél Lion Air fórst, að er þeir hefðu verið að fljúga 737 MAX-þotum, hefði vélin skyndilega varpast niður á við, samkvæmt gögnum sem AFP hefur skoðað.

Öll atvikin virðast snerta kerfi vélanna, sem ætlað er að hindra það að þær ofrísi á flugi, svokallaða MCAS-kerfi, sem hefur verið tengt við slysið í Indónesíu í október.

Bandarísk flugmálayfirvöld, FAA, neituðu að tjá sig um gögnin sem AFP vísaði til og sögðust ekki hafa fengið í hendur neinar skýrslur af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert