Lík konu fannst í grunnri gröf

Ljósmynd/Wikipedia.org

Karlmaður var handtekinn í dag í Eistlandi vegna gruns um að hann hefði myrt franska konu en lík hennar fannst í grunnri gröf við heimili hennar í London, höfuðborg Bretlands.

Fram kemur í frétt AFP að lík hinnar 34 ára gömlu Laureline Garcia-Bertaux hafi fundist 6. mars, en hún starfaði sem kvikmyndaframleiðandi. Krufning hafi leitt í ljós að hún hefði verið kyrkt. Karlmaðurinn, sem er 32 ára gamall, hefur verið settur í gæsluvarðhald.

Til stendur að framselja manninn til Bretlands en bresk lögregluyfirvöld höfðu uppi á honum í samvinnu við Europol. Farið var að hafa áhyggjur af Garcia-Bertaux þegar hún mætti ekki í vinnu 5. mars en hún starfaði hjá almannatengslafyrirtæki.

mbl.is