May hefur ekki gefist upp

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í neðri deild breska þingsins í …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í neðri deild breska þingsins í kvöld. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur ekki gefist upp á að reyna að fá breska þingið til þess að samþykkja útgöngusamning hennar við Evrópusambandið og stefnir að því að gera enn eina tilraunina til þess síðar í mánuðinum.

Fram kemur í frétt AFP að reiknað sé með því að þingið muni greiða á ný atkvæði um samninginn 20. mars en það hefur tvisvar hafnað honum með miklum meirihluta atkvæða. Síðast á þriðjudaginn með 391 atkvæði gegn 242.

Þingsályktunartillaga verður lögð fyrir þingið á morgun þess efnis að hafi útgöngusamningurinn ekki verið samþykktur fyrir þann tíma muni ríkisstjórnin óska eftir því við Evrópusambandið að útgöngu Bretlands úr sambandinu verði frestað og gert ráð fyrir tímaramma í þeim efnum fram til 30. júní í sumar.

Verði tillagan ekki samþykkt segir í greinargerð með tillögunni að þar með yrði ríkisstjórnin að óska eftir lengri frestun sem þýddi að Bretar yrðu að halda kosningar til Evrópuþingsins sem fram fara í maí. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert