Vilja hætta að styðja stríðið í Jemen

Mótmæli fyrir framan Hvíta húsið í Washington árið 2017, gegn …
Mótmæli fyrir framan Hvíta húsið í Washington árið 2017, gegn þátttöku og stuðningi Bandaríkjamanna í stríðsrekstrinum í Jemen. Nú hefur öldungadeild þingsins lagst gegn stuðningi Bandaríkjamanna við Sáda. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, samþykkti í kvöld tillögu þess efnis að Bandaríkin hætti að styðja við stríðsrekstur Sáda og bandamanna þeirra í Jemen. Sjö repúblikanar lögðust á sveif með demókrötum í atkvæðagreiðslunni.

Atkvæði féllu 54-46 og málið færist nú til fulltrúadeildar þingsins sem er undir stjórn demókrata og hefur áður samþykkt tillögu af svipuðum meiði.

AFP-fréttastofan lýsir því sem svo að utanríkisstefna Bandaríkjaforseta hafi verið snupruð af hálfu þingmanna öldungadeildarinnar.

Öldungadeildin fer fram á að Trump, sem er æðsti yfirmaður herafla Bandaríkjanna, komi í veg fyrir að bandarískar hersveitir taki þátt í bardögum eða aðgerðum sem snerti Jemen með nokkrum hætti, samkvæmt frétt AFP.

Búist er við að Bandaríkjaforseti beiti neitunarvaldi sínu gegn ákvörðun þingsins, samkvæmt frétt CNN um málið.

CNN greinir einnig frá því að þingmenn í öldungadeildinni sem studdu tillöguna hefðu fært þau rök fyrir máli sínu að bandarískir hermenn kæmu að stríðsrekstrinum í Jemen án þess að formlegrar heimildar þingsins hefði verið aflað.

Fleiri bættu því við, samkvæmt frétt CNN, að atkvæði þeirra féllu með tillögunni til þess að lýsa yfir óánægju með áframhaldandi stuðning Bandaríkjaforseta við krónprinsinn Mohammed bin Salman, sem hefur verið sakaður um að bera ábyrgð á morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Frétt New York Times af atkvæðagreiðslunni

Búist er við að Trump beiti neitunarvaldi gegn ákvörðun öldungadeildarinnar.
Búist er við að Trump beiti neitunarvaldi gegn ákvörðun öldungadeildarinnar. AFP
mbl.is