„Hermaður F“ verður ákærður fyrir tvö morðanna

Ástvinur Michael McDaid heldur á mynd af honum í Derry ...
Ástvinur Michael McDaid heldur á mynd af honum í Derry í dag. Hann var meðal þeirra þrettán sem skotnir voru til bana hinn blóðuga sunnudag 1972. AFP

Fyrrverandi hermaður í breska hernum á yfir höfði sér ákærur vegna morða á tveimur mönnum hinn „blóðuga sunnudag“ í norðurírsku borginni Londonderry árið 1972.

Í frétt BBC um málið kemur fram að saksóknari telji sig hafa næg sönnunargögn til að ákæra „hermann F“ eins og hann hefur opinberlega verið kallaður fyrir morðin á James Wray og William McKinney. Hann á einnig yfir höfði sér ákærur fyrir að reyna að drepa Patrick O'Donnell, Joseph Friel, Joe Mahon og Michael Quinn. Lestu meira

Þrettán voru skotnir til bana í mótmælagöngunni sem fram fór 30. janúar árið 1972. Dagurinn var upp frá því kallaður „hinn blóðugi sunnudagur“ og var sem olía á eld „vandræðanna“ svokölluðu á Norður-Írlandi, The Troubles, sem einkenndust af átökum milli Norður-Íra sem vildu áfram tilheyra Bretlandi og hinna sem vildu sameinað Írland. Víglínurnar voru einnig dregnar milli mótmælenda og kaþólskra þótt ósættið hafi ekki verið af trúarlegum meiði. Kaþól­ikk­ar voru flest­ir þjóðern­is­sinn­ar en mót­mæl­end­ur drottn­ing­ar­holl­ir, þ.e. sam­bands­sinn­ar.

Hermaðurinn fyrrverandi hefur aldrei verið nafngreindur því sérstök rannsóknarnefnd sem fjallaði um málið veitti öllum hermönnum sem viðstaddir voru mótmælin rétt til nafnleyndar. Fleiri hermenn voru bendlaðir við morðin á sínum tíma en saksóknari segir að ekki séu næg sönnunargögn til staðar sem líkleg eru til að leiða til sýknu. Það sama eigi við um tvo liðsmenn írska lýðveldishersins, IRA. 

Liam Wray, bróðirJames Wray, segist vera létt að loks verði einhver sóttur til saka fyrir morðið en á sama tíma finnur hann til með ættingjum annarra fórnarlamba. 

Veggmynd í norðurírsku borginni Londonderry með myndum af fórnarlömbunum þrettán.
Veggmynd í norðurírsku borginni Londonderry með myndum af fórnarlömbunum þrettán. AFP

Saksóknarinn Stephen Herron segir að bið ástvina fórnarlambanna hafi verið löng og erfið, „og í dag er enn einn erfiði dagurinn fyrir marga þeirra“.

Þó að sunnudagurinn blóðugi hafi átt sér stað fyrir 47 árum hvílir skuggi hans enn yfir Norður-Írum. Vandræðin, átökin sem honum fylgdu, vörðu í fleiri ár og aðeins tveir áratugir eru síðan friður komst á. Fjölmörgum spurningum er enn ósvarað og óvíst hvort saksótt verður vegna fjölda annarra morða og ýmissa mála sem tengdust þessu átakasama tímabili.

Liam Wray, bróðir Jim Wray, við veggmynd af atburðunum sem ...
Liam Wray, bróðir Jim Wray, við veggmynd af atburðunum sem áttu sér stað í Londonderry árið 1972. AFP

Eftir mannfallið í Londonderry var rannsóknarnefnd sett á fót sem hvítþvoði þá sem báru ábyrgð að mati ástvina fórnarlambanna. Önnur nefnd var því sett á laggirnar í tíð Tony Blair árið 1998. Sú nefnd komst að annarri niðurstöðu eða þeirri að mótmælendurnir í Londonderry hafi ekki verið lífshættuleg ógn og að hermennirnir hefðu misst stjórn á sér. Eftir að sú nefnd, kölluð Saville-nefndin, lauk störfum hófst ný lögreglurannsókn. Lauk rannsókninni árið 2016 og var málið þá sent saksóknara. Lögreglan taldi til tuttugu menn sem grunaðir voru um morðin, þar af átján fyrrverandi hermenn.

Mótmælagangan í Londonderry hófst á friðsamlegum nótum. Mannfjöldinn ætlaði að ganga að miðbænum en þá mættu honum vegatálmar sem hermenn höfðu sett upp. Rimmur urðu milli hermannanna og hóps ungmenna sem enduðu með því að hermennirnir ákváðu að hefja fjöldahandtökur. Þá hófst grjótkast og hermennirnir svöruðu með því að skjóta gúmmíkúlum, beita táragasi og vatnsbyssum. Aðeins fáum mínútum síðar hófu þeir svo skothríð.

Samkvæmt upplýsingum hersins skaut 21 hermaður af vopni sínu. Samanlagt var 108 skotum hleypt af. Þrettán létust.

mbl.is
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...
Skákborð vandað palesander
til sölu vandað skákborð. kr.45 þúsund.uppl.8691204...
Þreyttur á reykinga- myglulykt, lausn ?
Eyðir flest allri ólykt, m.a. Myglu-gró ásamt og raka- reykinga- og brunalykt. ...