Japan bannar flug Boeing 737 MAX

Þrjár Boeing 737 MAX 8-farþegavélar Shanghai Airlines.
Þrjár Boeing 737 MAX 8-farþegavélar Shanghai Airlines. AFP

Stjórnvöld í Japan hafa bæst í hóp þeirra ríkisstjórna sem hafa bannað flug farþegaflugvéla af gerðinni Boeing 737 MAX í lofthelgi sinni í kjölfar þess að vél þeirrar gerðar fórst síðasta sunnudag í Eþíópíu með þeim afleiðingum að 157 manns létu lífið.

Haft er eftir ónafngreindum embættismanni samgönguráðuneytis Japans í frétt AFP að banninu verði ekki aflétt fyrr en hægt verði að sannreyna öryggi Boeing 737 MAX-flugvélanna. Ekkert japanskt flugfélag er með slíkar flugvélar í rekstri samkvæmt fréttinni en All Nippon Airways hefur áform um að festa kaup á 30 slíkum vélum.

Þau ríki sem hafa áður kyrrsett Boeing 737 MAX-flugvélar og bannað flug þeirra í lofthelgi sinni eru meðal annars Bandaríkin, Kanada og Kína auk flestra Evrópuríkja. Icelandair á þrjár slíkar flugvélar og hafa þær verið kyrrsettar vegna ákvörðunar í öðrum ríkjum. Íslensk stjórnvöld hafa ekki ákveðið enn sem komið er að banna flug slíkra véla hér við land.

mbl.is