Kafari hafnaði í hvalskjafti

Kafarinn í kjafti hvalsins.
Kafarinn í kjafti hvalsins. Skjáskot/YouTube

Reyndur kafari lenti nýverið í því undan ströndum Suður-Afríku að hafna í hvalskjafti. Honum varð þó ekkert meint af enda um „blíðan risa“ að ræða sem hafði ekkert illt í hyggju.

Í frétt á dýrasíðunni The Dodo segir að kafarinn Rainer Schimpf, hafi verið að kafa ásamt teymi kvikmyndatökumanna er allt varð skyndilega svart. „Allt varð dimmt og ég fann þrýsting á mjöðminni,“ segir Schimpf, „og um leið og ég fann þrýstinginn þá vissi ég að hvalur hefði gripið um mig.“

Það reyndist rétt. Hvalur af tegund sem kennd er við norska hvalveiðimaninn Johan Brydes en heitir á íslensku skorureyður hafði opnað skoltinn og í honum lá nú Schimpf. „Það er enginn tími til að verða hræddur í aðstæðum sem þessum.“ Honum tókst að rifja upp að skorureyðar eru meinlausir blíðir risar. En á sama tíma var ekkert sem Schimpf gat gert. Hann varð einfaldlega að bíða eftir að hvalurinn losaði takið. Ekki leið á löngu þar til einmitt það gerðist. Kafarinn var því aðeins í kjafti hans í nokkrar sekúndur. „Mér skolaði út innan fárra augnablika,“ segir Schimpf sem telur að hvalurinn hafi verið jafn hissa og hann sjálfur.

Brydes-hvali eða skorureyði er helst að finna á hlýjum hafsvæðum. Þeir geta orðið gríðarstórir, 15-16 metrar að lengd og 12-25 tonn að þyngd. Hann á frændur við Íslandsstrendur, steypireyði og hnúfubak. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert