Vígamenn dæmdir í Svíþjóð

Ríki íslams eru glæpasamtök ekki trúarsamtök.
Ríki íslams eru glæpasamtök ekki trúarsamtök. AFP

Þriðjungur sænskra vígamanna sem hafa snúið heim frá Sýrlandi og Írak eftir að hafa barist með Ríki íslams hefur komist í kast við lögin eftir heimkomuna. Einn þeirra hefur verið ákærður fyrir morð.

Samkvæmt frétt sænska ríkissjónvarpsins hefur 41 vígamaður snúið heim af þeim 150 sem yfirgáfu landið til þess að berjast með vígasamtökunum.

Í Vivalla Örebro síðasta sumar sést á myndskeiði, sem nágranni tók upp, hópur manna ráðast á ungan mann. Þeirra á meðal rúmlega þrítugur maður sem stingur unga manninn til bana með skærum. Árásarmaðurinn er einn þeirra sem fóru snemma til Sýrlands ásamt tveimur bræðrum sínum. Þeir voru báðir drepnir í stríðinu í Sýrlandi.

12 sænskar konur hafa snúið aftur og hefur engin þeirra …
12 sænskar konur hafa snúið aftur og hefur engin þeirra komist í kast við lögin eftir heimkomuna. AFP

Samkvæmt fréttaskýringu SVT er erfitt að ná utan um fólkið sem hefur snúið til baka en alls hafði SVT upp á 41. Af þeim eru 12 konur og hefur engin þeirra komist í kast við lögin í Svíþjóð. Aftur á móti hafa 13 karlar gert það. Sakamálin eru af ýmsum toga. Fjársvik, skattsvik, mannrán, peningaþvætti, ofbeldisbrot, þjófnaður, eiturlyfjabrot og innbrot.

Einn þeirra sem nefndur er í skjölum Ríkis íslams yfir liðmenn vígasamtakanna neitar því að hafa tekið þátt í starfi vígasamtakanna. „Það hlýtur einhver að hafa stolið skilríkjunum mínum,“ segir hann í viðtali við SVT.

mbl.is