40 létust í hryðjuverkaárásinni

AFP

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jac­inda Ardern, segir að fjörutíu hafi látist í hryðjuverkaárásunum á tvær moskur í borginni Christchurch. Árásarmennirnir voru ekki á hryðjuverkalista en einn þeirra er ástralskur öfgasinni sem birti yfirlýsingu þar sem lýst er hatri á innflytjendum og flóttafólki. 

Ardern segir að ráðist hafi verið á Nýja-Sjáland vegna þess að þar sé fjölbreytni fólks virt en hryðjuverkamaðurinn sendi árásina beint út á netinu. Þar birti hann einnig stefnuyfirlýsingu sína þar sem hann segist vera að hefna fyrir innrás útlendinga í Evrópu. Hann hafi undirbúið árásina í tvö ár en staðsetningin hafi ekki verið ákveðin fyrr en fyrir þremur mánuðum.

AFP

Þrír karlar og ein kona eru í haldi lögreglu í tengslum við árásirnar. Fjölmargir voru í moskunum tveimur þegar ráðist var inn í þær. Öllum skólum og matvöruverslunum hefur verið lokað í Christchurch og fólk beðið um að halda sig innandyra. Nokkrar bílsprengjur hafa verið aftengdar. 

Að sögn Ardern eru tuttugu alvarlega særðir eftir skotárásirnar og segir hún að það sé algjörlega á hreinu að þetta sé hryðjverkaárás og ekkert annað. „Miðað við það sem við vitum á þessari stundu þá var hún mjög vel undirbúin.“

Arderm segir í sjónvarpsávarpi að tvær sprengjur hafi fundist í bifreiðum og þær hafi báðar verið aftengdar. Viðbúnaðarstig landsins hefur verið sett á efsta stig. 

Nokkrir Íslendingar búa í Christchurch en ekki hafa borist fregnir af því að þeir hafi verið á vettvangi. Þeir sem mbl.is hefur frétt af voru hvergi nærri þeim stöðum þar sem árásirnar voru gerðar. 

Arderm segir að ástæðan fyrir því að Nýja-Sjáland varð fyrir vali árásarmannanna sé ekki sú að landið leggi blessun sína við rasisma, ekki vegna þess að landið sé hólmlenda öfgasinna. Heldur hafi landið verið valið vegna þess að Nýja-Sjáland standi fyrir allt annað. Því þar sé fjölbreytni, mannúð og samkennd virt. Heimili fyrir þá sem deila þessum gildum með þjóðinni. Skjól fyrir þá sem þess þurfa, svo sem flóttamenn. Árásirnar breyta ekki þessum gildum og munu ekki hafa áhrif á þau. 

„Við erum stolt þjóð með yfir 200 þjóðarbrot og 160 tungumál. Og auk þessarar fjölbreyti þá deilum við sömu gildum. Eitt af því er að við sendum stuðning okkar og samkennd til þeirra sem þessi skelfilegur atburður hefur áhrif á,“ segir Arderm og bætir við að þjóðin fordæmi þá hugmyndafræði sem fólkið sem framdi hryðjuverkin aðhyllist. 

„Það getur verið að þið hafið valið okkur en við höfnum ykkur og fordæmum ykkur af heilum hug.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert