Hafa rýmt svæði í annarri borg

Lögreglan við Masjid al Noor-moskuna í Christchurch.
Lögreglan við Masjid al Noor-moskuna í Christchurch. AFP

Lögreglan á Nýja-Sjálandi, sem rannsakar hryðjuverkin sem kostuðu að minnsta kosti 49 manns lífið, hefur rýmt íbúabyggð í nágrenni byggingar í borginni Dunedin.

Byggingin sem nú hefur verið umkringd er í um 350 kílómetra fjarlægð frá Christchurch þar sem hryðjuverkin voru gerð. „Rýming á húsum í nágrenninu hefur verið gerð í varúðarskyni,“ segir í yfirlýsingu nýsjálensku lögreglunnar. 

Lögreglan greindi frá því fyrr í dag að tvær sprengjur hefðu fundist í farartæki sem byssumaðurinn notaði. Hann gerði árásir á tvær moskur. Að minnsta kosti 48 eru særðir. Búið er að gera sprengjurnar óvirkar.

Byssumaðurinn hefur verið handtekinn sem og tveir til viðbótar. Enn er ekki ljóst hver tengsl fólksins eru við Dunedin en þangað er um fjögurra klukkustunda akstur frá Christchurch. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert