Lögðu á flótta eða biðu og báðu

Lögreglumaður fyrir framan moskuna þar sem árásin var gerð.
Lögreglumaður fyrir framan moskuna þar sem árásin var gerð. AFP

Sjónarvottar sem lifðu af grimmdarlega hryðjuverkaárás í Nýja-Sjálandi í dag lýsa því að hryðjuverkamaður hafi ekki sýnt neinum vægð, eftir að hann ruddist inn í Al Noor-moskuna í Christchurch. 49 hið minnsta eru látnir og tugir til viðbótar alvarlega særðir.

Því er lýst hvernig einn maður, lágvaxinn hvítur karlmaður á þrítugsaldri, ruddist inn í Al Noor-moskuna þar sem um 300 manns voru við föstudagsbænir og byrjaði að skjóta á alla sem hann sá. Fólk reyndi að koma sér undan með því að flýja, jafnvel með því að brjóta glugga og stökkva út eða með því að fela sig og bíða inni í moskunni.

Alls eru þrír í haldi lögreglu og hefur einn árásarmaður þegar verið kærður fyrir morð. Fjórir voru upphaflega handteknir í aðgerðum lögreglu en einum hefur verið sleppt, þar sem hann tengdist ekki atburðunum.

„Það sem ég gerði var að bíða og biðja,“ segir einn sjónarvottur í Al Noor-moskunni við sjónvarpsstöðina TVNZ. Hann beið og bað þess, að byssukúlur hryðjuverkamannsins myndu klárast og segir að árásin á moskuna hafi staðið yfir í um 20 mínútur.

Lögreglumenn að störfum við Al Noor-moskuna í Christchurch í dag.
Lögreglumenn að störfum við Al Noor-moskuna í Christchurch í dag. AFP

Sjónarvotturinn lýsir því að hryðjuverkamaðurinn hafi fyrst farið í bænaherbergi karla, áður en að hann færði sig yfir í bænaherbergi kvenna og hóf að skjóta þær konur sem voru þar. Hann segir árásarmanninn hafa skotið á eftir fólki sem reyndi að forða sér út um glugga.

„Hann byrjaði að skjóta þau og hélt áfram að skjóta alla sem hann taldi enn vera á lífi,“ segir annar sjónarvottur við Radio New Zealand. „Hann vildi ekki að neinn myndi lifa af,“ bætir hann við.

„Við héldum bara áfram að hlaupa“

„Mamma greip í höndina á mér og síðan hlupum við bara út. Allir voru í örvæntingu, bara að hlaupa fyrir lífi sínu,“ segir Mulki Abdiwahab, 18 ára háskólanemi, í samtali við TVNZ. Hún var í Al Noor-moskunni og hélt í fyrstu eftir að árásin þar hófst að einhver hefði verið að banka á gluggana.

„Ég vissi ekki hvað þetta var, ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt byssuhvelli,“ segir hún. Í dag heyrði hún hins vegar að eigin sögn um það bil hundrað slíka, áður en hún náði að forða sér. Síðan héldu skothvellirnir áfram í tíu mínútur, að hennar sögn.

„Ég hef aldrei heyrt annað eins. Þetta hélt bara áfram.“

Hún og móðir hennar komust óhultar frá árásinni og leituðu skjóls á nærliggjandi heimili, en faðir hennar særðist og er nú á spítala.

„Þetta er ekki Christchurch“

„Við vorum búin að vera að biðja í um tíu mínútur þegar við heyrðum skothvelli fyrir utan, en við héldum áfram að biðja. Mínútu síðar voru skothvellirnir inni,“ segir Azam Ali sem var í Linwood-moskunni ásamt um 150 öðrum.

„Nokkrir menn sem voru þarna inni hlupu út og komu til baka, allir úti í blóði. Þegar við stóðum upp sáum við að fólk í kringum okkur sem hafði verið skotið. Það blæddi úr því, úr hálsinum á sumum,“ segir Ali.

„Ég hef búið í Christchurch í meira en tuttugu og fimm ár. Ég hef aldrei séð nokkuð svona. Þetta er ekki rétt, þetta er ekki Christchurch,“ bætir hann við.

Samantekt BBC á frásögnum sjónarvotta

Þjóðfána Nýja-Sjálands hefur verið flaggað í hálfa stöng á þinghúsinu …
Þjóðfána Nýja-Sjálands hefur verið flaggað í hálfa stöng á þinghúsinu í Wellington, á þessum sorgardegi í sögu þjóðarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert