Sautján mínútur af skelfingu

Byssumaðurinn í Christchurch sendi sautján mínútur af hrottalegri árás sinni út í beinni útsendingu. Myndavélina hafði hann á höfðinu. Brenton Tarrat, hvítur 28 ára gamall Ástrali, birti á netinu ítarlega „stefnuyfirlýsingu“ sína í anda átrúnaðargoðs síns, Anders Behring Breivik. Tarrant, „hægri öfgamaður og ofbeldisfullur hryðjuverkamaður“, eins og Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, lýsir honum, hefur verið handtekinn. Tveir aðrir hafa verið handteknir í tengslum við árásirnar sem gerðar voru í tveimur moskum í borginni.

Að minnsta kosti 49 liggja í valnum og álíka margir eru særðir, sumir lífshættulega. Íbúar í Christchurch eru í miklu áfalli og einn þeirra lýsir því hvernig hann tók á móti særðu fórnarlambi árásarinnar sem flúði inn á heimili hans í nágrenni Masjid al-Noor-moskunnar. Aðrir lýsa því hvernig þeir heyrðu að því er virtist óteljandi skotum hleypt af, að minnsta kosti fimmtíu.

Brotin rúða í bifreið sem stóð við moskuna þar sem árásin var gerð. AFP

Atburðarásin er enn að skýrast en er talin þessi í stuttu máli:

Hvítur ljóshærður maður kom akandi að al-Noor-moskunni. Hann gekk svo hægum skrefum í átt að inngangi hennar, dró upp vopn sitt og beindi því að fólki innandyra. Á því myndbandi sem árásarmaðurinn tók upp af árás sinni má sjá að hann byrjar að skjóta í anddyrinu en fer svo inn í herbergi þar sem fólk er saman komið til bæna. Og þar hefur hann einnig skothríð.

Hann fór svo inn í fleiri herbergi, m.a. herbergi þar sem konur koma saman til bæna. Eftir fimm mínútur fer hann út í bíl sinn og sækir aðra byssu. Hann snýr svo aftur til moskunnar og skýtur þá sem enn virðast á lífi.

Önnur árás var svo gerð í annarri mosku og þar létust að minnsta kosti tíu. Fréttir af því hvað þar gekk á eru enn mjög á reiki.

Frá Ástralíu

Tarrant bjó í ástralska bænum Grafton og segjast bæjarbúar vera í áfalli. Hann hafi komið vel fyrir og verið kurteis ungur maður. En á einhverjum tímapunkti hefur allt breyst, hann orðið ofstækisfullur sem að lokum varð til þess að hann hélt vopnaður til Christchurch þar sem hann skaut tugi til bana.

Kveikt á kertum við mosku á Nýja-Sjálandi í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar. AFP

Brenton Tarrant gekk í grunnskóla í Grafton og að lokinni skólagöngu hóf hann störf í líkamsræktarstöð. Fyrrverandi yfirmaður segir hann reglulega hafa boðist til að þjálfa börn kauplaust. Í apríl árið 2010 lést faðir hans úr krabbameini, aðeins 49 ára að aldri. Í kjölfarið lagðist Tarrant í ferðalög og var í sjö ár að skoða heiminn.

Vini hans grunar nú að á því flakki sínu hafi hann kynnst öfgahyggju.

Myndbandið af árásinni, sem sent var út beint á Facebook, hefur nú verið fjarlægt af samfélagsmiðlinum og reynt er að koma í veg fyrir að það fari í dreifingu annars staðar. Þá hefur Facebook- og Instagram-síðum Tarrants verið lokað.

Byggt á fréttum New Zealand Hereald, hér og hér og fréttum Sky-fréttastofunnar.

Flaggað í hálfa stöng á Nýja-Sjálandi.
Flaggað í hálfa stöng á Nýja-Sjálandi. AFP
mbl.is