Skiptust á samúðarkveðjum

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, skiptust á samúðarkveðjum í dag vegna flugslyssins á sunnudagsmorgun þar sem 157 létust þegar þota Ethiopian Airlines fórst.

Fram kemur í Twitter-færslu forsætisráðherrans að hann og Trump hafi skipst á kveðjum en fólk frá bæði Eþíópíu og Bandaríkjunum var á meðal þeirra sem létust.

Þar kemur enn fremur fram að Trump hafi hrósað eþíópíska flugfélaginu fyrir viðbrögð þess í kjölfar slyssins og forsetinn bauð fram alla þá tæknilegu aðstoð sem óskað yrði eftir.

Abiy Ahmed.
Abiy Ahmed. AFP

Lýst var yfir þjóðarsorg í Eþíópíu vegna slyssins og stjórn landsins óskaði eftir aðstoð við rannsókn þess.

Flugvélin sem fórst, Boeing 737 MAX, var einungis fjögurra mánaða en vélar af þeirri gerð hafa verið kyrrsettar víða um heim eftir slysið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert