„Vekur upp sárar minningar“

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, hvetur alþjóðasamfélagið til þess að berjast gegn öfgahyggju af öllu tagi í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í Christchurch. Hún segir að árásin veki sárar minningar frá fjöldamorðum Anders Behring Breivik í Noregi 2011.

„Þetta er mjög sorglegt og vekur upp sárar minningar af okkar eigin reynslu 22. júlí sem er versta stund Noregs frá stríðslokum,“ segir Solberg í viðtali við TV2. „Þetta sýnir okkur að öfgahyggja blómstrar á mörgum stöðum,“ segir hún. 

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Að sögn Solberg er þetta einnig viðvörun um að hvergi megi hvika frá baráttunni gegn öfgahyggju. Hvaða nafni sem hún nefnist. 

Breivik skaut 77 til bana og voru flest fórnarlömb hans ungmenni í sumarbúðum á Útey. Hann sagðist hafa valið fórnarlömb sín vegna þess að þau hafi hvatt til fjölmenningar. 

49 létust í árásinni í Christchurch og segir forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, að um hryðjuverk sé að ræða. 48 eru með skotsár og margir þeirra mjög alvarlega særðir. Af þeim látnu var 41 í Al Noor-moskunni en sjö í moskunni við Linwood Avenue. Einn lést á sjúkrahúsi. 

Einn maður hefur verið ákærður fyrir morð, 28 ára gamall Ástrali, og verður hann leiddur fyrir dómara á morgun. Tveir til viðbótar eru í haldi en fjórða manneskjan sem einnig var handtekin fyrr í dag hefur verið látin laus þar sem hún tengist ekki árásinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina