Andlát „Bunga bunga“ fyrirsætu rannsakað

Imane Fadil var lykilvitni í máli gegn Silvio Berlusconi, fyrrverandi …
Imane Fadil var lykilvitni í máli gegn Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, árið 2012. AFP

Andlát fyrirsætu frá Marokkó, sem lést á spítala á Ítalíu 1. mars, verður rannsakað en grunur leikur á að það hafi borið að með saknæmum hætti. Hún vitnaði í máli gegn Sil­vio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, fyrir sjö árum síðan.

Imane Fadil var 33 ára þegar hún lést á spítala í Mílanó, mánuði eftir að hún var lögð inn vegna magaverkja. Hún sagðist halda að sér hefði verið byrlað eitur.

Ítalskir fjölmiðlar segja að mögulegt sé að henni hafi verið byrlað með geislavirku efni.

Fadil var lykilvitni í máli gegn Berlusconi sem var sakaður um að borga fyrir kynmök með vændiskonu undir lögaldri. Berlusconi var upphaflega sakfelldur en sýknaður eftir að málinu var áfrýjað.

Fadil sagði fyrir sjö árum að Berlusconi héldi „villt­ar veisl­ur“ á setri sínu fyr­ir utan Mílanó, þar á meðal kjöltu­dans­sýn­ing­ar sem nefnd­ust „Bunga Bunga“. Hún sagðist hafa heyrt að Berlusconi hefði borgað fyr­ir kyn­mök með í það minnsta tveim­ur kon­um í veisl­um sín­um.

„Það er alltaf sorglegt þegar ung manneskja deyr. Ég hitti þessa konu aldrei og talaði aldrei við hana,“ var haft eftir Berlusconi í tengslum við andlát Fadil.

Francesco Greco, saksóknari í Mílanó, sagði í samtali við Reuters að spítalanum hefði ekki tekist að finna það út með vissu hver dánarorsök Fadil er. Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að sýni úr henni hafi verið send til rannsóknar og í þeim hafi fundist geislavirk efni.

Ítalskir fjölmiðlar greina enn fremur frá því að Fadil hafi verið að skrifa bók um reynslu sína. Rannsakendur hafa fengið eintak af því sem komið var á blað í hendurnar.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert