Fórnarlömbin orðin fimmtíu

Íbúar í Christchurch minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar. Lögreglan í Nýja-Sjálandi hefur …
Íbúar í Christchurch minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar. Lögreglan í Nýja-Sjálandi hefur staðfest að fimmtíu manns létust í árásunum tveimur á föstudag. AFP

Fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í Christchurch í Nýja-Sjálandi á föstudags eru orðin fimmtíu. Þetta staðfesti nýsjálenska lögreglan eftir að búið var að fjarlægja lík úr moskunum tveimur.

Árásarmaðurinn, hinn 28 ára gamli Brent­on Tarr­ant, var leidd­ur fyr­ir dóm­ara á í morgun. Hann er ákærður fyr­ir morð eft­ir hryðju­verka­árás sem hann framdi í tveim­ur mosk­um í borginni. Annar maður sem var handtekinn í kjölfar árásanna kemur fyrir dómara á mánudag þar sem honum verða birtar ákærur vegna árásanna. Einn maður til viðbótar er í haldi lögreglu.

Tarrant fór ekki fram á lausn gegn trygg­ingu og var færður í varðhald. Hann verður þar þangað til hann kem­ur aft­ur fyr­ir dóm­ara 5. apríl.

Fimmtíu særðust í árásunum og þar ef eru 36 enn á sjúkrahúsi. Meðal hinna særðu eru fjögurra ára stúlka sem er í lífshættu og tveggja ára drengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert