Handtekinn vegna hatursfærslu

Lögreglumaður á verði við Masjid al-Noor-mosk­una í Christchurch í dag.
Lögreglumaður á verði við Masjid al-Noor-mosk­una í Christchurch í dag. AFP

Lögreglan í Bretlandi hefur handtekið karlmann á þrítugsaldri en maðurinn er grunaður um hatursfulla færslu á samfélagsmiðlum í kjölfar hryðjuverkanna í Christchurch í Nýja-Sjálandi.

Samkvæmt lögreglunni í Manchester studdi hinn handtekni hryðjuverkin með færslu sinni.

„Þegar fólk fer yfir strikið grípum við til aðgerða. Það getur þýtt handtaka og lögsókn,“ kom fram í yfirlýsingu lögreglu. 

„Fjöldi fólks er í áfalli og það er á svona stundum sem við stöndum saman sem samfélag,“ kom enn fremur fram hjá lögreglunni.

Brenton Tarrant, 28 ára Ástrali sem lýsti sjálfum sér sem hvítum öfgasinna, hefur verið ákærður fyrir morð vegna hryðjuverkanna.

Samfélagsmiðlar hafa verið gagnrýndir fyrir að sýna beint frá voðaverkunum en Tarrant var til að mynda með beina útsendingu á Facebook-síðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert