Safna fyrir fleiri eggjum

Hér sést þegar eggið skellur á höfði þingmannsins.
Hér sést þegar eggið skellur á höfði þingmannsins. Ljósmynd/Twitter

Söfn­un­ar­átak er hafið fyrir „eggjastrákinn“ sem skellti eggi í höfuð ástralska þingmannsins Fraser Ann­ing en þingmaðurinn hefur kennt múslimum og innflytjendastefnu Nýja-Sjálands um hryðjuverkin í Christchurch.

Söfnunin snýr að lögfræðikostnaði sem pilturinn gæti þurft að greiða fyrir eftir eggjakastið og auk þess stendur á gofundme.com að vonir standi til að pilturinn geti keypt fleiri egg.

Þegar fréttin er skrifuð höfðu safnast 13.831 dollari, sem jafngildir um 1,6 milljón íslenskra króna.

Anning viðraði skoðanir sínar í gær en fjölmargir hafa sagt ummæli hans ógeðsleg. 

Anning ræddi við fréttamann fyrr í dag þegar ungur maður, sem tók ræðuna upp, skellti eggi í höfuð þingmannsins. Anning sneri sér við og kýldi piltinn tvisvar.

Aðstoðarmenn Annings tóku piltinn hálstaki, héldu honum niðri og sögðust hafa framkvæmt borgaralega handtöku.

Lögregla rannsakar atvikið og segir að framkoma beggja mannanna, „eggjastráksins“ og þingmannsins, verði skoðuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert