Þrýsta á stjórnvöld að afhenda líkin

Nýsjálendingar eru harmi slegnir vegna hryðjuverkaárásarinnar á föstudag en hjá …
Nýsjálendingar eru harmi slegnir vegna hryðjuverkaárásarinnar á föstudag en hjá aðstandendum fórnarlambanna kemst aðeins eitt að: Að fá lík ástvina sinna afhent. AFP

Til stóð að afhenda fyrstu lík þeirra, sem létust í hryðjaverkaárásinni í Christchurch á föstudag, í dag. Aðstandendur fórnarlambanna bíða óþreyjufullir eftir því að geta fengið líkamsleifar ástvina sinna afhentar svo hægt sé að bera þá til grafar en samkvæmt íslömskum hefðum skal jarðsetja hina látnu sólarhring eftir andlát.

Stjórnvöld í Nýja-Sjálandi hafa tilkynnt að þau geti einungis afhent eitt lík í dag en búið verði að afhenda öll líkin 50 í síðasta lagi á miðvikudag. Deborah Marshall dánardómstjóri segir að mikilvægt sé að vanda til verka. „Það er ekkert verra en að afhenda fjölskyldu rangt lík.“

Erfitt að vita af aðstandendum liggjandi í moskunum 

Nýsjálendingar eru harmi slegnir vegna hryðjuverkaárásarinnar á föstudag en hjá aðstandendum fórnarlambanna kemst aðeins eitt að: Að fá lík ástvina sinna afhent. Töluverð spenna hefur myndast milli aðstandenda og yfirvalda vegna þessa.

„Þetta er fjöldamorð, hvað fleira þurfa þau að vita?“ spyr Sheikh Amjad Ali aðstoðarskólastjóri sem ferðaðist frá Auckland til að aðstoða við skipulagningu útfara. „Fjölskyldurnar eru sorgmæddar en það er líka farið að gæta pirrings. Dánarorsökin eru kunn, af hverju ekki að afhenda þau lík sem búið er að bera kennsl á?“

Ali segist ekki vilja gagnrýna stjórnvöld sem þurfi að fara eftir ákveðnum lögum og reglum en að taka þurfi mið af aðstæðum og finna jafnvægi á milli laga og menningargilda. Hann segir það erfitt fyrir aðstandendur að vita af ástvinum sínum liggjandi á gólfunum í moskunum tveimur.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir að „lítill hluti“ líkanna verði afhentur í dag. Sex sérfræðingar hafa verið kallaðir til frá Ástralíu til að hjálpa við að bera kennsl á líkin og verða þau öll afhent fyrir miðvikudag, líkt og áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert