Úrskurðuðu lifandi sjúkling látinn

Sjúkrahúsið í Molde sætir nú í þriðja sinn umfjöllun fjölmiðla …
Sjúkrahúsið í Molde sætir nú í þriðja sinn umfjöllun fjölmiðla vegna meðhöndlunar ofkældra sjúklinga. Ljósmynd/Helse Møre og Romsdal

Sjúkrabifreið var send með hraði á vettvang eftir að tilkynning barst um konu sem lægi meðvitundarlaus í snjóskafli í bænum Molde í norska fylkinu Mæri og Raumsdal 19. febrúar.

Var konan mjög köld er að var komið og hraðaði áhöfn sjúkrabifreiðarinnar sér með hana á sjúkrahús bæjarins þar sem tilraunir til endurlífgunar báru ekki árangur. Svo sem reglur gera ráð fyrir barst lögreglunni í Molde klukkan 11:44 þennan morgun tilkynning um dauðsfall af völdum ofkælingar.

Verklagsreglur lögreglunnar gera þá ráð fyrir frumrannsókn sem til að byrja með snýr að því hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti. Var lögreglumaður sendur á sjúkrahúsið til að leita verksummerkja um hugsanlegt saknæmt athæfi.

Þegar lögregla stóð yfir líkinu og hugðist hefja frumskoðun tók það að hreyfa sig og gaf frá sér hljóð öllum að óvörum og varð lögreglumanninum hverft við þetta. Læknar voru í för með honum og því hæg heimatökin að veita fyrstu hjálp sem í þetta sinnið bar árangur og er konan lífs í dag.

„Ekkert að fela í þessu máli“

Lögregluþjónninn sem fór á vettvang neitaði alfarið að ræða við TV2 um málið í morgun og vísaði á yfirmenn sína. Helse Møre og Romsdal, sem rekur sjúkrahúsið, tilkynnti þegar um dánarúrskurðinn vafasama til heilbrigðisyfirvalda fylkisins en hvort tveggja þar á bæ og á sjúkrahúsinu hefur fjölmiðlum reynst erfitt að fá nokkurn til að tjá sig um málið en því hefur nú verið lokið með ákvörðun um að ekki séu efni til að aðhafast frekar. Sjúklingurinn lifir og punktur.

„Helse Møre og Romsdal hefur ekkert að fela í þessu máli,“ segir Torstein Hole, fagstjóri HMR, í samtali við TV2 í dag, „af tillitssemi við sjúklinginn og aðstandendur hans [...] teljum við ekki rétt að tjá okkur um málið við fjölmiðla. Þarna upplifðum við dauðsfall sem samkvæmt reglum var tilkynnt lögreglu símleiðis. Til þess að tryggja að málið hljóti forsvaranlega eftirfylgni verður farið ofan í saumana á því gegnum innra gæðakerfi sjúkrahússins.“

Heilbrigðiseftirlit fylkisins tjáði TV2 skriflega að málinu hefði verið lokið og ekki talin efni til frekari rannsóknar og er þá spurt hvort það tákni að ekkert aðfinnsluvert hafi átt sér stað þegar lifandi sjúklingur er úrskurðaður látinn.

„Nei, það þarf ekki að tákna að ekkert aðfinnsluvert hafi átt sér stað,“ svarar Brynhild Braut, deildarstjóri hjá heilbrigðiseftirlitinu, og segist ekki geta tjáð sig mikið meira um málið en það, þarna hafi manneskja ofkælst fyrir slysni en að öðru leyti sé þagnarskylda embættisins algjör.

Þriðja málið varðandi ofkælingu

Heilbrigðiseftirlitið hefur sent konunni, sem um tíma var talin lík, bréf þar sem henni er tilkynnt að eftirlitinu hafi borist tilkynning um alvarlegt atvik. „Á grundvelli þeirra upplýsinga sem okkur hafa borist höfum við metið aðstæður svo að ekki sé ástæða til frekari rannsókna til að upplýsa um málsatvik. Við teljum heldur ekki að nauðsyn krefjist annars konar eftirfylgni málsins, en munum nýta atvik þessa máls við mat á öðru máli á hendur Helse Møre og Romsdal þar sem aðstæður voru svipaðar,“ segir í bréfinu sem TV2 hefur undir höndum.

Konunni er að lokum bent á að henni sé frjálst að leita til umboðsmanns sjúklinga þurfi hún frekari aðstoðar við. 

Hitt málið, sem vísað er til í bréfinu, kom upp í febrúar í fyrra þegar fimmtugur maður fannst meðvitundarlaus utandyra í Molde með líkamshitastig upp á 23 gráður. Samkvæmt verklagsreglum hefði þá átt að senda hann beina leið á St. Olavs-sjúkrahúsið í Trondheim sem er sérútbúið til að meðhöndla mjög kalda sjúklinga. Í 15 manna hópi sem kom að meðhöndlun mannsins á Molde-sjúkrahúsinu mundi skyndilega einn hjúkrunarfræðingur, sem mætti á næstu vakt, eftir þessum reglum og maðurinn var sendur með þyrlu til Trondheim án tafar.

Átta árum áður, 7. mars 2010, hafði reglum sjúkrahússins varðandi ofkælda sjúklinga verið breytt eftir að tvær níu ára gamlar stúlkur létust eftir að hafa fallið í sjóinn við Karihola í Kristiansund svo málið núna í febrúar er það þriðja sem snýr að meðhöndlun ofkældra sjúklinga við sjúkrahúsið í Molde.

TV2

NRK

VG

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert