1,5 milljónir myndbanda fjarlægðar

Úr myndbandinu frá árásinni sem var streymt í beinni útsendingu …
Úr myndbandinu frá árásinni sem var streymt í beinni útsendingu á Facebook. AFP

Facebook hefur fjarlægt 1,5 milljónir myndbanda sem sýna árásina sem var gerð í Christchurch á Nýja-Sjálandi. Á sama tíma hefur samfélagsmiðillinn verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki tekist betur að stöðva útbreiðslu myndbandanna.

Á meðan vígamaðurinn skaut hvert fórnarlambið á fætur öðru í Al Noor-moskunni í Christchurch tók hann voðaverkið upp og streymdi í beinni útsendingu á Facebook Live. Virtist hann nota myndavél sem hann hafði fest á líkama sinn. Áður hafði hann sett stefnuyfirlýsingu uppfulla af kynþáttafordómum á Twitter.

Facebook segist hafa fjarlægt myndbandið „með snöggum hætti“, ásamt reikningi vígamannsins á Instagram. Á fyrstu 24 klukkustundunum eftir árásina voru 1,5 milljónir myndbanda af árásinni stöðvaðar eða þeim eytt. Þar af var komið í veg fyrir að 1,2 milljónum myndbanda væri hlaðið inn.

Mia Garlick, talskona Facebook á Nýja-Sjálandi, sagði að fyrirtækið væri að „vinna sleitulaust“ við að fjarlægja ólöglegt efni, bæði með aðstoð tækninnar og starfsfólks.

Ljósmynd af lógói Facebook á farsíma í frönsku borginni Nantes.
Ljósmynd af lógói Facebook á farsíma í frönsku borginni Nantes. AFP

Eins og eldur í sinu um netið

Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi beðið fólk um að deila ekki myndbandinu af árásinni, sem er sautján mínútna langt, hefur það farið um netið eins og eldur í sinu. Að sögn sérfræðinga er mjög auðvelt að verða sér úti um það.

Samkvæmt tölum Facebook tókst ekki að hindra að 300 þúsund myndböndum, í það minnsta, væri hlaðið inn. Engar opinberar tölur eru til um hversu oft horft var á þau eða hve oft þeim var deilt.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði að stjórnvöld gerðu allt sem þau gætu til að stöðva útbreiðslu myndbandsins en benti á að ábyrgðin lægi fyrst og fremst hjá Facebook.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Íhuga að hætta að auglýsa á Facebook

Að sögn nýsjálenska dagblaðsins Herald eru sum stór fyrirtæki í landinu að íhuga að hætta að auglýsa á Facebook í mótmælaskyni. Einn af viðskiptablaðamönnum blaðsins hafði þetta að segja: „Eins og staðan er núna eiga börnin mín á hættu að sjá ofbeldismyndir í beinni útsendingu á Facebook, bara svo að Mark Zuckerberg geti orðið aðeins ríkari,“ skrifaði hann. „Nú er komið nóg.“

Facebook Live hefur áður verið notað til að streyma voðaverkum í beinni útsendingu. Sýnt var beint frá morði í bandarísku borginni Cleveland árið 2017. Bæði Facebook og Twitter segjast hafa fjárfest í tækni og mannskap sem á að takast á við vandann en gagnrýnendur segja að það dugi ekki til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert