Boeing fékk mikið vald á öryggiskoðunum

Boeing 737 Max-farþegaþotur við verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki. …
Boeing 737 Max-farþegaþotur við verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki. FAA er sagt hafa veitt Boeing of mikið vald við vottun véla sinna. AFP

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) þrýstu á verkfræðinga stofnunarinnar að veita Boeing-flugvélaframleiðandanum verulega mikla ábyrgð á öryggisskoðunum á Boeing 737 Max-farþegaþotunum. Þetta kemur fram í umfjöllun Seattle Times um málið, en blaðið hefur eftir verkfræðingum sem sérhæfa sig í flugöryggi að alvarlegir hnökrar hafi verið á prófununum.

Það var árið 2015 sem Boeing reyndi að hraða skráningu nýju Max-vélanna, og ná þar með í skottið á Airbus-flugvélaframleiðandanum sem var að setja A320-vélarnar á markað. Stjórnendur FAA þrýstu líka verkfræðinga stofnunarinnar að útvista öryggisprófunum til Boeing svo Max-vélarnar fengju fyrr vottun, en framleiðsla vélanna var þá níu mánuðum á eftir áætlun.

Nokkrir alvarlegir gallar voru hins vegar á öryggisgreiningunni sem Boeing afhenti FAA varðandi nýja stýrikerfið í Max-vélunum. Stýrikerfi MCAS (Maneuvering Characteristics Augmentation System) er nú til rannsóknar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa á innan við fimm mánaða tímabili.

Seattle Times ræddi við bæði núverandi og fyrrverandi starfsmenn öryggisprófana FAA og segja þeir minna hafa verið gert úr krafti nýja stýrikerfisins en efni voru til. Stýrikerfið var hannað þannig að hæðarstýrikambur vélarinnar ýtti nefi vélarinnar niður til að koma í veg fyrir ofris. Þegar Max-vélarnar komu svo í framleiðslu var MCAS-stýrikerfið fært um að hreyfa hæðarstýriskambinn fjórum sinnum meira en tilgreint var í upprunalegu öryggisgreiningunni.

Brak úr farþegaþotu Ethiopian Airlines.
Brak úr farþegaþotu Ethiopian Airlines. AFP

Leituðu svara hjá FAA og Boeing 11 dögum fyrir slysið

Ekki kom heldur fram í greiningunni að kerfið gæti endurstillt sig í hvert skipti sem flugmaður reyndi að bregðast við aðgerðum þess og gæti þar með haldið áfram að ýta nefi vélarinnar niður.

Seattle Times segir að leitað hafi verið svara hjá bæði Boeing og FAA um þessar upplýsingar 11 dögum áður en vél Ethiopian Airlines hrapaði á sunnudaginn fyrir viku með þeim afleiðingum að 157 manns létust.

Síðasta föstudag sögðu forsvarsmenn FAA svo að hefðbundnum  ferlum hefði verið fylgt við skráningu Max-vélanna. Daginn eftir svaraði Boeing því til að FAA hefði farið yfir lokaútreikninga MCAS-stýrikerfisins við vottun Max-vélanna og komist að þeirri niðurstöðu að það mætti öllum kröfum.

Boeing sagðist hins vegar ekki geta tjáð sig um fullyrðingar um galla á skráningu MCAS-stýrikerfisins vegna „núverandi rannsóknar“, en sagði þó um „verulega rangtúlkun“ að ræða.

FAA gengið of langt í útvistun til Boeing

Nokkrir sérfræðingar FAA, sem Seattle Times ræddi við og allir kröfðust nafnleyndar, segja MCAS-stýrikerfið klárlega hafa átt þátt í því að Boeing 737 Max 8-farþegaþota indónesíska Lion Air-flugfélagsins hrapaði í október á síðasta ári. Segja þeir þetta aðeins vera síðasta dæmið um að of langt hafi verið gengið hjá FAA við útvistun á vottun flugvéla og að það sé óviðeigandi að starfsmenn Boeing hafi svo mikið vald á öryggisprófunum á þotum fyrirtækisins.

„Við þurfum að tryggja að FAA taki miklu ríkari þátt í öryggisprófunum,“ hefur blaðið eftir einum verkfræðinganna.

MCAS-stýrikerfi Max-vélanna gengur gegn þeirri venju Boeing-véla að veita flugmanninum fullt vald yfir flugvélinni og var það hannað til þess að vinna í bakgrunni án aðkomu flugmannsins. Ástæðan er sú að stærri vél Max-farþegaþotanna er staðsett fjær vængjum flugvélarinnar og breytir þar með lofthreyfikrafti vélarinnar.

Kerfið er líka hannað til að ræsast sjálfkrafa við vissar aðstæður.

Skrúfulæsing í óvenjulegri stellingu

Seattle Times segir verkfræðinga Boeing hafa fengið heimild frá FAA til að vinna að þróun öryggisgreiningar MCAS-kerfisins og var því skjali síðar deilt með loftferðaeftirlitsstofnunum víða um heim, en þar er fullyrt að 737 Max-vélarnar mæti öllum stöðlum FAA.

Engu að síður sýndi flugriti Lion Air-farþegaþotunnar að einn gallaður mælir olli því að MCAS-stýrikerfið ýtti ítrekað nefi vélarinnar niður á við á meðan flugmaðurinn barðist við að stýra vélinni upp á við aftur.

Eftir að FAA lýsti því yfir á miðvikudag í síðustu viku að Boeing 737 Max-vélarnar hefðu verið kyrrsettar greindi stofnunin frá því að viss samsvörun væri með hrapi Lion Air-þotunnar og flugs nr. 302 frá Ethiopian Airlines.

Seattle Times segir rannsakendur á flugslysi Ethiopian Airlines enn fremur hafa fundið skrúflæsingu á flughæðarkambi vélarinnar í óvenjulegri stellingu og ein ástæða þess geti verið MCAS-stýrikerfið.

Eru rannsakendur nú sagðir vinna að því að úrskurða hvort hrap beggja véla megi reka til MCAS-stýrikerfisins.  

Stöðug pressa að endurmeta ákvarðanir

Seattle Times segir FAA, sem beri við skorti á fjárframlögum, hafa um árabil aukið sjálfsvald Boeing til að taka á sig sífellt stærri þátt í að votta öryggi eigin flugvéla. Við upphaf vottunar Max-vélanna átti verkefnið að skiptast milli sérfræðinga FAA og sérfræðinga Boeing, en eftir því sem verkefnið dróst á langinn tóku yfirmenn FAA að þrýsta á sína undirmenn að hraða ferlinu. Tíminn skipti Boeing öllu.

„Það var stöðug pressa á að endurmeta upphaflegar ákvarðanir okkar,“ hefur blaðið eftir einum fyrrverandi starfsmanna FAA sem segir yfirmenn hafa talið sérfræðinga stofnunarinnar hafa tekið of mikið af verkefnum við vottunina á sig. „Það var engin heildarskoðun á skjölunum,“ segir hann og kveður skoðunum hafa verið flýtt í gegn til að standast tímaramma.

Í einhverjum tilfellum, þegar sérfræðingum FAA vannst ekki tími til að sinna verkinu, vottuðu stjórnendur sjálfir verkin eða sendu þau aftur til Boeing til endurskoðunar.

„Það eru stjórnendur FAA, ekki sérfræðingarnir, sem hafa lokaorð varðandi framsalið,“ bætir hann við.

Eitt þeirra verkefna sem Boeing var falið var öryggisskoðun á MCAS-stýrikerfinu sem m.a. gerði þær breytingar á hreyfimöguleika hæðarstýrikambsins að hann fór úr því að geta hreyfst um 0,6 gráður í 2,5 gráður án þess að FAA væri kunnugt um þá breytingu fyrr en farþegaþota Lion Air hrapaði.

Peter Lemme, fyrrverandi flugvélaverkfræðingur hjá Boeing, segir að af því MCAS-stýrikerfið getur endurræst sig aftur og aftur hafi það í raun ótakmarkað vald. „Það hefur vald til að hreyfa stélflötinn alla leið. Það var engin þörf á því,“ sagði Lemme. „Enginn hefði átt að samþykkja að veita því [MCAS] ótakmarkaða stjórn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina