K-popparar í kynlífsmyndbandahneyksli

Jung Joon-young mætir til yfirheyrslu hjá lögreglu í Seúl í …
Jung Joon-young mætir til yfirheyrslu hjá lögreglu í Seúl í síðustu viku. AFP

Skandall skekur nú poppheiminn í Suður-Kóreu, en lögregluyfirvöld þar í landi hafa gefið út handtökuskipun á hendur poppstjörnunni Jung Joon-young, sem hefur viðurkennt að hafa dreift kynlífsmyndböndum af sér og að minnsta kosti tíu konum á netinu, án þeirra samþykkis.

Jung deildi myndskeiðunum árið 2015 í gegnum spjallforrit á netinu, meðal annars með annarri poppstjörnu í „K-popp“-heiminum, Seungri, sem var í hljómsveitinni BIGBANG. Hann hefur dregið sig úr sviðsljósinu í kjölfarið og er hættur í strákasveitinni.

Auk Jung hefur lögregla gefið út handtökuskipun á hendur öðrum manni, starfsmanni næturklúbbs sem var í samskiptum við Jung á netinu. Honum er gefið að sök að hafa dreift kynlífsmyndböndum, samkvæmt frétt AFP.

Jung er 30 ára gamall og tilkynnti í síðustu viku að hann hygðist hætta í skemmtanabransanum vegna málsins, en hann hefur verið í strákasveitinni HIGHLIGHT.

Kynlífsmyndbandaskandallinn hefur einnig leitt til þess að tveir karlkyns söngvarar til viðbótar hafa dregið sig í hlé, eftir að þeir viðurkenndu að hafa horft á þessi ólögmætu myndbönd.

Seungri, söngvari í strákabandinu BIGBANG, hefur viðurkennt að hafa horft …
Seungri, söngvari í strákabandinu BIGBANG, hefur viðurkennt að hafa horft á upptökur frá Jung. Hann mætir hér til yfirheyrslu hjá lögreglu í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert