Skothríð á nokkrum stöðum

Hollenskir lögreglumenn á vakt í kjölfar skotárásarinnar í sporvagni í …
Hollenskir lögreglumenn á vakt í kjölfar skotárásarinnar í sporvagni í borginni Utrecht í Hollandi í morgun. AFP

Skotum var hleypt af á nokkrum stöðum í borginni Utrecht í Hollandi í dag. Þetta kom fram í máli Pieter-Jaap Aalbersberg, yfirmanns hjá hollensku lögreglunni, á blaðamannafundi í Haag í dag í kjölfar þess að karlmaður hóf skothríð í sporvagni í Utrecht í morgun með þeim afleiðingum að einn lét lífið og nokkrir særðust. 

Víðtæk leit stendur yfir að árásarmanninum og hefur verið lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi vegna hryðjuverkaógnar í Hollandi. Meðal annars hefur eftirlit á flugvöllum í landinu verið aukið sem og við mikilvægar byggingar með aðstoð herlögreglu.

Lögregluforinginn Pieter-Jaap Aalbersberg á blaðamannafundi í borginni Haag í Hollandi …
Lögregluforinginn Pieter-Jaap Aalbersberg á blaðamannafundi í borginni Haag í Hollandi í dag. AFP

Almenningssamgöngur í Utrecht liggja niðri. Þar á meðal til og frá borginni að því er segir í frétt AFP. Skólum hefur verið lokað og sömuleiðis moskum.

Talið er að maðurinn hafi verið einn að verki en ekki hefur verið útilokað að hann hafi átt sér vitorðsmenn. Talið er að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða en enn hefur ekki verið gefin út formleg yfirlýsing stjórnvalda þess efnis.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert