Stubbar algengasta rusl veraldar

Sígarettustubbum er hent um allar grundir og enda svo oft ...
Sígarettustubbum er hent um allar grundir og enda svo oft í ám, vötnum og sjónum þar sem þeir ógna lífríki. AFP

Einnota sogrör og plastpokar eru langt frá því eina uppspretta plastmengunar í heiminum og nú hefur kastljósinu verið beint að sígarettustubbum, nánar tiltekið síunum (e. filters) sem á þeim eru. Síurnar innihalda plast og eru algengasta rusl veraldar. Þær eru t.d. sá einstaki hlutur sem oftast finnst í hreinsunum á ströndum og á götum í þéttbýli. 

„Margir reykingamenn gera ráð fyrir að síurnar séu úr efni sem brotni hratt niður í náttúrunni,“ hefur CNN eftir Elizabeth Smith, sérfræðingi í tóbaksvörnum við Háskólann í Kaliforníu. Veruleikinn er hins vegar allt annar og 98% allra sígarettusía eru úr plasti sem tekur allt að áratug að brotna niður.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

Í frétt CNN um málið segir að Evrópusambandið hyggist setja þær kvaðir á tóbaksframleiðendur að þeir fjármagni hreinsun á sígarettustubbum. Um er að ræða hluta af reglum sem hafa það að markmiði að draga úr notkun á einnota plasti.

Á hverju ári eru framleiddar billjón sígarettur, þ.e. milljón milljónir. Í síurnar fara yfir milljón tonn af plasti. Almenningur sættir sig óvenjulega mikið við að sígarettustubbum sé hent á jörðina, að því er fram kemur í rannsókn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Meirihluta allra stubba er hent á gangstéttir, götur og í ræsi. Þaðan berast þeir með vindi og regni út í ár, vötn og sjó.

Síurnar sía minna

Ljóst er því að sígarettustubbar eru mengandi en gera síurnar raunverulegt gagn fyrir þann sem reykir?

Í fréttaskýringu CNN segir að síurnar hafi fyrst verið settar á sígarettur á sjötta áratug síðustu aldar þegar áhyggjur af því að reykingar yllu krabbameini fóru vaxandi. Síurnar voru hannaðar til að draga úr magni eiturefna sem reykingamaðurinn andaði að sér. 

En um miðjan sjöunda áratuginn var ljóst að tjaran og nikótínið sem síurnar drógu í sig eru einmitt þau efni sem seðja fíkn reykingamannsins. Tóbaksframleiðendur héldu áfram að setja síur á sígaretturnar en ekki eins áhrifamiklar svo að þær hleyptu nikótíninu í gegn. 

Tóbaksfyrirtækin hafa sagt síurnar til bóta þegar kemur að heilsu reykingamanna en  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir slíkar fullyrðingar blekkjandi. Eftir að síurnar komu til sögunnar dró úr ákveðinni tegund lungnakrabbameins sem reykingar valda. Hins vegar jókst önnur tegund slíks krabbameins. Lífslíkur fólks eru þær sömu, hvort krabbameinið sem það fær, hefur CNN eftir lækni í fréttaskýringu sinni.

mbl.is
Ný Bridgestone dekk
Ný Bridgstone ónotuð 4 sumardekk til sölu 18 tommu, 225/40 R 18, Verð aðeins 60 ...
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
til sölu volvo
Volvo XC V70 til sölu Volvo V70 station. Árg. 2000. Mjög góður bíll. Vel viðhald...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...