Svindlarar reyna að græða á árásinni

Svikahrappar hafa nýtt sér viðkvæmt ástand almennings á Nýja-Sjálandi í …
Svikahrappar hafa nýtt sér viðkvæmt ástand almennings á Nýja-Sjálandi í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á föstudag og svikið fé út úr fólki. AFP

Stórtækir svikahrappar reyna nú að nýta sér góðmennsku almennings í Nýja-Sjálandi í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í Christchurch fyrir helgi með því að óska eftir fjárframlögum með tölvupóstum.

Fjöldi fólks hefur fengið tölvupóst með hlekk á söfnunarsíðu fyrir fórnarlömb árásarinnar og aðstandendur þeirra. Gefnar eru upplýsingar um reikning svo að fólk geti lagt söfnuninni lið en öll upphæðin rennur svo beint til svikahrappanna. Netöryggisstofnun yfirvalda er með málið til rannsóknar.

Íbúar á Nýja-Sjálandi vilja gera hvað sem þeir geta til að aðstoða aðstandendur þeirra 50 sem létu lífið í árásinni og hafa safnast yfir sjö milljónir nýsjálenskra dollara, eða sem nemur um 584 milljónum króna. Ekki er ljóst hversu stór hluti upphæðinnar hefur runnið beint til svikahrappanna.

Westpac-bankinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem varað er við að nafn bankans er notað í tengslum við svikin.

Yfir fjörutíu söfnunaraðgangar hafa verið stofnaðir á hópfjármögnunarsíðunni Give a little og er fólk beðið um að kynna sér bakgrunn þeirra vel áður en það lætur fé af hendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert