May undirbýr formlega frestunarbeiðni

Theresa May forsætisráðherra Bretlands er nú sögð undirbúa formlega beiðni ...
Theresa May forsætisráðherra Bretlands er nú sögð undirbúa formlega beiðni til ESB um frestun útgöngu Breta úr ESB. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirbýr nú ritun bréfs til Evrópusambandsins þar sem farið er formlega fram á frestun fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr ESB.

BBC hefur eftir einum heimildamanna sinna innan bresku stjórnarinnar að um allt að tveggja ára frestun gæti verið að ræða, en breskir fjölmiðlar segja töluverðar deilur um málið innan stjórnarinnar.

Forsætisráðuneytið segir enga ákvörðun hins vegar enn hafa verið tekna.

Michel Barnier, samningamaður ESB um útgöngu Breta segir sambandið hins vegar ekki munu veita Bretum frest, nema fyrir liggi föst áætlun um það í hvað bresk stjórnvöld ætli að nýta tímann.

Bretar eiga að yfirgefa Evrópusambandið 29. mars nk. og verður sú útganga samningslaus takist May ekki að fá útgöngunni frestað, en breska þingið hefur í tvígang hafnað þeim samningum sem May hefur náð við forsvarsmenn Evrópusambandsins.

Þingið samþykkti hins vegar að útgöngu yrði frestað frekar en að landið yfirgefi ESB samningslaust.

BBC segir May hafa vonast til að fá þriðja tækifærið til að fá þingmenn til að samþykkja samninginn í þessari viku, en þingforsetinn John Bercow kom í veg fyrir slíkt í gær. BBC segir May engu að síður enn vonast til að geta gert þriðju tilraunina til að fá þingheim á sitt band og verði af slíku þurfi Bretar engu að síður einhvern frest fyrir útgöngu til að koma nauðsynlegri löggjöf í gegnum þingið.

Hefur BBC eftir heimildamanni innan stjórnarráðsins að May ætli að biðja ESB að fallast á frest til 30. júní, með möguleika á enn lengri fresti, en May hefur varað þingmenn Íhaldsflokksins við að þörf verði á mun lengri frestun útgöngu komist samningur hennar við ESB ekki í gegnum þingið.

mbl.is
YRSA Reykjavík, stál-kvenúr. Svissneskt
Ronda verk, auðlæs skífa, 50 m vatnshelt, 2ja ára ábyrgð. Tilboðsverð 9.900,- Sa...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...
Gefins - áttu klink sem þú mátt missa?
Kattholt þiggur með þökkum smámynt (hvaðan sem er). Þetta fer til að fjármagna...