Fékk far og kom í veg fyrir flugslys

Boeing 737 MAX 8-farþegaþota í eigu flugfélagsins Lion Air.
Boeing 737 MAX 8-farþegaþota í eigu flugfélagsins Lion Air. AFP

Einum degi áður en Boeing 737 MAX 8-flugvél Lion Air hrapaði í Java-haf við Indónesíu í október í fyrra hafði aukaflugmaður í stjórnklefanum komið í veg fyrir sams konar atvik. Áttaði hann sig á vandamálinu sem tengdist bilun í svokölluðum MCAS-búnaði sem er ætlað að koma í veg fyrir ofris vélarinnar.

Með ráðleggingum aukaflugmannsins, sem hafði fengið far með vélinni og var á frívakt, komu flugmenn vélarinnar í veg fyrir slys þann daginn. Hins vegar kom sams konar atvik upp degi síðar og réðu þá flugmennirnir ekki við neitt og endaði það með að flugvélin hrapaði með þeim afleiðingum að allir 189 um borð létust.

Í frétt Bloomberg segir frá málinu, en ekki hafði verið greint frá því í skýrslu flugslysanefndar Indónesíu frá því í nóvember. Vísað er í tvo heimildarmenn sem koma að rannsókninni.

Önnur flugvél sömu gerðar í eigu Etiopian Airlines hrapaði í þessum mánuði í Kenýa, en 157 manns létust í því slysi. Í framhaldinu hafa allar vélar þessarar gerðar verið kyrrsettar meðan rannsókn stendur yfir, en bilun í fyrrnefndu MCAS-kerfi hefur verið tengd við bæði slysin.

Í fluginu þar sem aukaflugmaðurinn brást rétt við sagði hann flugmönnunum að minnka inngjöf vélarinnar sem myndi lækka stöðu nefs vélarinnar. Í frétt Bloomberg er haft eftir talsmanni flugfélagsins að öllum upplýsingum hafi verið komið áfram til rannsóknarnefndarinnar og að félagið hafi ekkert meira að segja meðan rannsókn standi yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina