Fimm ára eyddi sólarhring í eyðimörkinni

„Mér var kalt og ég svaf illa upp við stein,“ …
„Mér var kalt og ég svaf illa upp við stein,“ segir drengurinn við fjölmiðla. Ljósmynd/Sergio Uñac

Fimm ára gamall drengur sem týndist í eyðimörk í vesturhluta Argentínu í hátt í sólarhring hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Benjamín Sánchez var með fjölskyldu sinni í eyðimörkinni þegar leiðir skildu. Sjálfboðaliðar fundu hann tæpum sólarhring síðar 21 kílómetra frá staðnum þar sem hann sást síðast.

„Mér var kalt og ég svaf illa upp við stein,“ segir drengurinn við fjölmiðla, en hann var aðeins íklæddur stuttermabol og léttum buxum. BBC greinir frá.

Hann kveðst hafa komist af með því að borða gras og drekka vatn úr litlum vatnsflaumi. Þegar hann fannst síðdegis á mánudag var hann fluttur rakleiðis á sjúkrahús með þyrlu, en hefur nú verið útskrifaður.

Benjamín fannst að lokum þar sem hann sat undir tré, en þúsund manns tóku þátt í leitinni.

„Mamma var að elta mig og ég byrjaði að hlaupa. Í fyrstu heyrði ég í henni en svo týndist ég. Ég settist við stein og kallaði á hana en hún heyrði ekki í mér. Þá byrjaði ég að labba í átt að ljósi sem var mjög langt í burtu.“

Á þessum árstíma eru hitasveiflur á svæðinu miklar. Á daginn fer hitinn upp í allt að 30 stig en á næturnar getur hann farið niður í frostmark. Benjamín kveðst hafa verið mjög hræddur og saknað fjölskyldu sinnar. Hann er flughræddur og vildi fyrst um sinn ekki fara um borð í þyrluna. Honum snerist hins vegar hugur þegar honum var tjáð að þannig kæmist hann í faðm fjölskyldunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert