Frestun bundin jákvæðri atkvæðagreiðslu

Evrópusambandið mun aðeins fallast á frestun á útgöngu Bretlands úr ESB fallist breska þingið á núverandi samning sem Bretum stendur til boða. BBC segir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, hafa fengið þessi skilaboð frá Brussel.

Donald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í dag möguleika á að ESB samþykki beiðni May um frestun, en Bretar eiga samkvæmt núverandi samkomulagi að yfirgefa ESB 29. mars nk.

May skrifaði Tusk í dag bréf þar sem farið er fram á að útgöngu sé frestað til 30. júní og kveðst hún í bréfinu þurfa meiri tíma til að koma samningnum um útgöngu í gegnum breska þingið og fá hann lögfestan.

May flutti yfirlýsingu fyrir framan forsætisráðherrabústaðinn nú í kvöld og sagðist þá vera „í liði“ með breskum almenningi og að það „væri löngu tímabært“ að þingmenn tækju ákvörðun varðandi útgönguna.

Tusk sagðist í dag telja að öll 27 ríki ESB myndu samþykkja frestun útgöngu, en að slíkt væri skilyrt og bundið „jákvæðri“ atkvæðagreiðslu í fulltrúadeild breska þingsins. Að því skilyrði mættu væri hægt að ræða hversu langur frestur til útgöngu væri.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, við forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, við forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti. AFP
mbl.is