Kveikti í rútu með skólabörnum

Skólarútan brann til kaldra kola eins og sést á þessari …
Skólarútan brann til kaldra kola eins og sést á þessari mynd. Lögregla náði hins vegar áður að bjarga börnunum út um rúðu í afturhlutanum. AFP

Ítalska lögreglan bjargaði í dag 51 skólabarni úr skólarútu, sem rænt hafði verið af bílstjóranum. Hann hellti í kjölfarið bensíni yfir rútuna og hótaði að kveikja í. „Enginn mun lifa af,“ segir BBC bílstjórann hafa sagt, en atburðurinn átti sér stað í nágrenni Mílanó.

Börnunum, sem sum hver voru bundin, var hins vegar bjargað í gegnum rúðu aftan í rútunni og sluppu þau öll án verulegra meiðsla. Um 14 manns urðu þó fyrir reykeitrun.

Bílstjórinn, sem er ítalskur ríkisborgari af senegölskum uppruna, var handtekinn.

„Þetta er kraftaverk því þetta hefði getað orðið algjört blóðbað,“ hefur BBC eftir Francesco Greco, saksóknara í Mílanó.

Kennari sem var í rútunni segir manninn hafa verið reiðan vegna stefnu ítalskra stjórnvalda í garð innflytjenda. Hafa sumir ítalskir fjölmiðlar sagt manninn hafa hrópað „stöðvið dauðsföllin á Miðjarðarhafi“.

Skólabörnin voru á leið úr skóla sínum í Vailati di Crema í leikfimisal þegar bílstjórinn ók skyndilega aðra leið og hélt í átt að flugvelli Mílanó. Hann tók því næst að ræða við farþega rútunnar með hníf í hönd. Þá hringdi einn drengjanna um borð í foreldra sína sem létu lögreglu vita.

Það tók lögreglu nokkurn tíma að stöðva för rútunnar og segja ítalskir fjölmiðlar manninn þá hafa verið búinn að hella bensíni inni í rútunni. Lögregla náði hins vegar að brjóta afturrúðu og bjarga farþegunum út áður en eldurinn náði yfirhöndinni.

BBC hefur eftir saksóknara að verið sé að rannsaka öll möguleg tilefni, m.a. hafi lögregla ekki útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Hinn hægrisinnaði innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, brást við fréttum af atvikinu með reiði og fullyrti að bílstjórinn hefði verið á sakaskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert