Nauðguðu og myrtu systur sína

Mynd úr safni frá mótmælum gegn nauðgunum á Indlandi.
Mynd úr safni frá mótmælum gegn nauðgunum á Indlandi. AFP

Indverska lögreglan hefur handtekið tvo bræður sem sakaðir eru um að hafa nauðgað tólf ára gamalli systur sinni en þeir, ásamt þriðja bróðurnum og frænda, drápu hana þegar hún hótaði að segja frá ofbeldinu.

Að sögn lögreglu kyrktu þeir stúlkuna og afhöfðuðu með sigð þegar hún hótaði því að kæra þá til lögreglu. 

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er ekki óalgengt á Indlandi en 36 þúsund tilkynningar bárust um slíkt árið 2016. Ekki eru til nýrri upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi frá indverskum yfirvöldum. Einn af hverjum þremur þolendum nauðgana á Indlandi er á barnsaldri. Tæplega helmingur gerenda eru tengdir börnunum. 

Fertugur frændi stúlkunnar er einnig í haldi lögreglunnar en elsta bróður hennar er leitað en lík stúlkunnar fannst í Madhya Pradesh-ríki í síðustu viku. 

Ofbeldismennirnir reyndu í upphafi að koma sökinni á aðra fjölskyldu en þegar lögreglan benti á misræmi í frásögn þeirra og að elsti bróðirinn hefði látið sig hverfa þótti ljóst að sökin var þeirra sjálfra. 

Að sögn lögreglustjórans tóku allir mennirnir fjórir þátt í að nauðga barninu og drepa það. Krufning staðfestir að barnið er fórnarlamb hópnauðgunar. Hann segist aldrei áður hafa fengið jafn skelfilegt mál á borð sitt. Það sé jafnvel ekki hægt að fá neinn lögmann til að taka að sér að verja þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert