Pia vísaði barni úr þingsal

Pia Kjærs­ga­ard, forseti danska þingsins, í umtalaðri heimsókn sinni til …
Pia Kjærs­ga­ard, forseti danska þingsins, í umtalaðri heimsókn sinni til Íslands síðastliðið sumar. mbl.is/​Hari

„Þú ert óvelkomin með barnið þitt í þingsal,“ voru skilaboðin sem Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, kom áleiðis til Mette Abildgaard þingmanns Íhaldsflokksins sem mætti með fimm mánaða gamla dóttur sína, Esther Marie, inn í þingsal í gær.

Mette tjáði sig um málið í Facebook-færslu sem hefur vakið mikla athygli og greinir þar frá því að faðir Estherar hefði ekki getað annast hana á þessum tímapunkti og að hún sjálf hefði óvænt þurft að vera viðstödd atkvæðagreiðslu í þingsal.

Hún ákvað að taka dóttur sína með, þar sem hún var í góðu skapi og með snuð og því ekki líkleg til þess að raska ró þingheims, en ef Esther hefði ókyrrst hefði aðstoðarmaður þingmannsins tekið hana. Auk þess segir Mette, að hún hafi áður séð þingmann með barn í þingsalnum, án nokkurra athugasemda.

„Ég veit ekki til þess að það séu neinar ritaðar reglur um þetta,“ skrifar Abildgaard, sem þakkar Torben, starfsmanni þingsins, fyrir að taka Esther Marie í fang sitt eftir að þau skilaboð bárust frá Piu Kjærsgaard að hún væri ekki velkomin í þingsalnum.

Talsmaður Piu Kjærsgaard sagði við danska blaðið BT að þingforsetinn hefði einungis verið að fylgja reglum þingsins og að henni hefði þótt sem barnið væri að „trufla þingfundinn“.

Fæðingarorlof í Danmörku er með því lengsta í heiminum en Mette segir að hún hafi viljað koma fyrr til baka til að þjóna lýðræðinu og trúði hún því að nærvera dóttur hennar myndi ekki valda neinum vandræðum. 

Börn velkomin í þingsölum víða um heim

Erlendir miðlar á borð við BBC og The Guardian hafa fjallað um málið, enda er Mette er ekki fyrsta þingkonan í heiminum til að taka barn sitt með í þingsal, til eru fjölmörg dæmi um slíkt og er Ísland ekki undanskilið. Þrjú ár eru síðan Unn­ur Brá Kon­ráðsdótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, var með ný­fædda dótt­ur sína á brjósti þegar hún mætti í ræðustól á Alþingi þegar fram fór at­kvæðagreiðsla um út­lend­inga­lög.

Börn hafa einnig komið við sögu hjá Sameinuðu þjóðunum en dóttir Jac­inda Ardern, for­sæt­is­ráðherra Nýja-Sjá­lands, var aðeins þriggja mánaða þegar móðir hennar flutti sína fyrstu ræðu hjá Sam­einuðu þjóðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert