Líkin koma í ljós

AFP

Stjórnendur leiðangra á hæsta fjall heims, Everest, hafa áhyggjur af þeim fjölda líka og líkamshluta sem eru að koma upp á yfirborðið vegna bráðnunar jökla. Tæplega 300 fjallgöngumenn hafa látist á Everest frá því fyrst var farið að klífa fjallið. Tveir þriðju þeirra eru grafnir undir snjó og ís. 

Unnið er að því þessa dagana að fjarlægja lík og líkamshluta sem hafa fundist á norðurhlið Everest og er stefnt að því starfi ljúki að mestu áður en vorar en sá árstími er vinsælastur meðal fjallgöngumanna. Yfir 4.800 fjallgöngumenn hafa farið á hæsta tind jarðar. 

„Vegna hlýnunar jarðar bráðna jöklar og ísbreiðan hratt og lík þeirra sem hafa verið grafnir þar í öll þessi ár eru nú að koma upp á yfirborðið,“ segir Ang Tshering, fyrrverandi formaður samtaka fjallaleiðsögumanna í Nepal.

Hann segir að lík einhverra fjallgöngumanna sem hafa látist á fjallinu undanfarin ár hafi verið flutt niður af fjallinu en lík þeirra sem fórust fyrir löngu síðan séu nú byrjuð að koma í ljós.

Embættismaður sem BBC ræddi við segist sjálfur hafa fundið tíu lík á mismunandi stöðum á Everest á undanförnum árum og það fari ekki á milli mála að sífellt fleiri séu að koma upp á yfirborðið.

Erfitt og kostnaðarsamt

Oft er mjög erfitt að nálgast líkin og flytja þau niður af fjallinu. Til að mynda fannst hönd látins fjallgöngumanns fyrir ofan fyrstu búðir árið 2017. Ráða þurfti nepalska fjallgöngumenn (serpa) til þess að flytja lík mannsins niður. Það sama ár fannst annað lík í jaðri Khumbu-skriðjökulsins en þar hafa nokkur lík fundist undanfarin ár. 

Við búðir 4 á svæði sem nefnist South Col hafa fundist nokkur lík. Til að mynda hafa hendur og fætur komið óvænt upp í grunnbúðum Everest á sama tíma og þær hafa færst neðar. 

Rannsóknir sýna að jöklar á þessu svæði bráðna hratt og þynnast stöðugt. Í rannsókn sem var birt árið 2015 kemur fram að þeir væru að breytast mjög vegna hlýnunar og tjarnir sem fjallgöngumenn verða að komast fyrir séu að stækka vegna þessa. 

Nepalski herinn þurrkaði upp Imja-vatnið skammt frá Everest árið 2016 eftir að vatnshæð þess hafði náð hættumörkum vegna bráðnunar jökla. 

Óþekktur fjallgöngumaður sem fórst á norðurhrygg Everest árið 1996.
Óþekktur fjallgöngumaður sem fórst á norðurhrygg Everest árið 1996. Wikipedia/Maxwelljo40

„Grænu gönguskórnir“

Teymi sérfræðinga boraði inn í Khumbu-skriðjökulinn í fyrra og kom í ljós að hitastigið var hærra en talið var. Reyndist hitastig íssins vera -3,3 stig og þar sem hann var kaldastur var hann tveimur gráðum hlýrri en lofthitinn er að meðaltali á ári á þessu svæði sögulega séð. 

Hreyfing skriðjökulsins hefur einnig orðið til þess að líkin hafa komið í ljós og þess vegna hafa ýmsir fjallgöngumenn gengið fram á lík eða líkamshluta á leið upp fjallið. En fjallaleiðsögðumenn í Nepal segja að flestir þeirra sem taka ákvörðun um að klífa Everest séu undirbúnir undir það andlega. 

Í sumum tilvikum hafa líkin á efsta hluta Everest orðið að kennileiti fyrir komandi kynslóðir fjallgöngumanna. Til að mynda „grænu gönguskórnir“ skammt frá hátindinum. Þar er vísað til fjallgöngumanns sem lést þar árið 1996 með græna Koflach-gönguskó á fótum. Líkið er þar enn og allir þeir sem klífa norðurhlið Everest reka augun í líkið í grænu skónum. Árið 2014 hvarf líkið og var talið að búið væri að fjarlægja það af fjallinu en það kom síðan í ljós að nýju árið 2017 og er talið að grjót hafi lent á því þannig að það sást ekki. 

Það er ekki auðvelt verk að sækja lík á slóðum sem þessum en það kostar á milli 40-80 þúsund Bandaríkjadali, 5-10 milljónir. 

Að sögn Ang Tshering var eitt erfiðasta verkefnið sem hann veit um af þessu tagi þegar lík fannst í 8.700 metra hæð og ákveðið var að flytja það niður. Líkið var algjörlega frosið og var 150 kg að þyngd auk þess sem það var á stað sem afar erfitt var að komast á. 

Annað sem sérfræðingar benda á er að það sé mjög persónubundið hvort fólk vilji láta sækja lík ættingja. Flestir fjallgöngumenn vilji fá að hvíla á fjallinu sjálfu ef þeir lifa ekki ferðalagið af. Í sumum tilvikum er það því vanvirðing við þeirra eigin ósk ef það er gert. Ekki nema að fjölskylda viðkomandi vilji láta sækja líkið og eins ef það finnst á klifurleiðinni sjálfri.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert