Sagður látinn en er sprelllifandi

AFP

Hálfsjálfvirkir rifflar og hríðskotarifflar verða bannaðir á Nýja-Sjálandi samkvæmt nýrri vopnalöggjöf sem forsætisráðherra landsins, Jacinda Ardern, kynnti í dag. Er það gert í kjölfar hryðjuverkanna í Christchurch fyrir tæpri viku. 50 létust í skotárásum vígamanns í tveimur moskum í borginni. 

Ardern á von á því að nýju lögin taki gildi 11. apríl. „Saga okkar breyttist til framtíðar. Nú munu lög okkar einnig gera það.“

Kennsl hafa verið borin á alla þá sem létust í árásunum. Einn maður, ástralskur vígamaður, hefur verið ákærður fyrir morðin. 

Lögreglan staðfesti þetta í dag og eins að einn þeirra sem vígamaðurinn var ákærður fyrir að hafa myrt sé á lífi. Mistök hafi verið gerð og rangt nafn gefið upp. Að sögn lögreglu hefur verið rætt við manninn og hann beðinn formlega afsökunar. 

Þekktur ástralskur álitsgjafi hefur beðið álitshnekki eftir að hafa gert grín að talanda Ardern þegar hún flutti ræðu í þinginu í fyrradag. Flestir hafa hrósað henni mjög fyrir það hvernig hún hefur brugðist við árásunum undanfarna daga.

Þegar hún flutti ræðuna á þingi þar sem hún sagðist aldrei ætla að nefna árásarmanninn á nafn virðist sem talandi hennar hafi farið eitthvað í taugarnar á Sam Newman, sem er fyrrverandi ruðningsleikmaður og þáttastjórnandi í Ástralíu. Newman gerir þetta að umtalsefni á Twitter í gær og féllu ummæli hans í grýtta jarðveg. Yfir 1.500 ummæli voru skrifuð um færsluna og voru þau nánast öll neikvæð í hans garð. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Newman vekur deilur því í fyrra var hann harkalega gagnrýndur fyrir ummæli sín um múslima. Sagði hann múslima í Ástralíu ekki eiga neitt sameiginlegt með öðrum í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert