Spjót beinast að flugkerfi 737 MAX-8

Boeing 737-MAX flugvélar á flugvellinum í Renton í Washington-ríki í ...
Boeing 737-MAX flugvélar á flugvellinum í Renton í Washington-ríki í Bandaríkjunum þar sem verksmiðjur Boeing eru. Allar MAX-vélar hafa verið kyrrsettar tímabundið. AFP

Boeing-flugvélasmiðjan er sögð við það að ljúka endurbótum á stjórnbúnaði Boeing 737 MAX-8 flugvéla sem talinn er hafa valdið því að tvær þotur af þessari gerð steyptust til jarðar og fórust með 346 manns innanborðs. Í fyrra slysinu, í október, fórst þota Lion Air í Indónesíu með 189 manns um borð og fyrir röskri viku fórst 737-þota Ethiopian Airlines með 157 manns í Eþíópíu.

Mikil líkindi eru með slysunum báðum, að sögn rannsakenda. Beinist athyglin að búnaði í flugkerfi þotunnar, svokölluðu MCAS-kerfi sem ætlað er að hindra að flugvélar ofrísi á flugi. Rannsókn á flugritum beggja flugvéla hefur leitt í ljós, að MCAS-kerfið hagaði sér með sambærilegum hætti í báðum slysum.

Dennis Muilenburg, framkvæmdastjóri Boeing, sagði í vikunni, að fyrirtækið væri að ljúka við hugbúnaðaruppfærslu í MCAS-kerfinu. Þetta væri gert vegna mögulegrar villu í skynjarabúnaði kerfisins. Óljóst er hvenær uppfærslu kerfisins lýkur og hvenær MAX-þotan kemst aftur í loftið. Það gæti þó orðið þegar í næstu viku, að sögn ótilgreindra heimildarmanna hjá Boeing, sem kyrrsetti allar vélar sömu tegundar eftir seinna slysið vegna þess hversu lík slysin voru.

AFP

MCAS [Maneuvering Characteristics Augmentation System] er sjálfvirkur öryggisbúnaður sem vakir í bakgrunni stjórnkerfis 737 MAX 8 flugvélarinnar. Hann var hannaður til að koma í veg fyrir að vængirnir missi lyftikraft á flugi og ofrísi. Þessi búnaður var bæði í þotu Lion Air og Ethiopian Airlines. Brottflug beggja flugvéla var reikult og óviðráðanlegt, þar sem á skiptust bratt klifur og brattar dýfur með flöktandi flughraða áður en þær skullu til jarðar skömmu eftir flugtak.

Bent hafði verið á truflun á eðlilegri starfsemi MCAS-kerfisins sem orsakavald í hrapi Lion Air þotunnar í Indónesíu í október. Þá sagði bandaríska loftferðaeftirlitið (FAA) að uppgötvanir á slysstað skammt frá Addis Ababa í seinna tilvikinu svo og „hreinsuð gervitunglagögn“ kölluðu á „frekari rannsókn á þeim möguleika að orsakir slysanna tveggja séu deildar“.

Sögðu óþarft að kyrrsetja

Í fyrstu sögðu bandarísk flugmálayfirvöld óþarft að kyrrsetja 737 MAX 8 og 9 vegna slysanna en skipti um skoðun þegar búið var að banna flug þeirra um nær allan heim.

Boeing þróaði MCAS-kerfið fyrir 737 Max 8 þotuna þar sem þyngri og neyslugrennri hreyflar hennar breyttu lofthreyfifræðilegum eiginleikum þotunnar og geta valdið því að trjónan rísi við ákveðnar aðstæður í handvirku flugi.

Áfallshornsskynjarar í flugvélinni senda MCAS-búnaðinum fyrirmæli um að beina nefinu sjálfkrafa niður á við nálgist flugvélin ofrishraða. Þar kemur við sögu hæðarstýriskambur á stéli flugvélarinnar sem tölvur stýrakerfanna virkja. Að sögn Boeing stýrir MCAS ekki flugi þotunnar í eðlilegu flugi en „lagar hegðan flugvélarinnar“ við „óeðlilegar“ aðstæður. Þar gæti verið um brattar klifurbeygjur að ræða eða bratt flug eftir flugtak með vængbörð uppi á flughraða sem er ekki fjarri ofrishraða.

AFP

Gögn úr flugrita Lion Air þotunnar sýndu að flugmenn hennar stríddu við sjálfvirka MCAS-kerfið um að halda stjórn á henni. Vísaði kerfið nefinu hvað eftir annað niður á við eftir flugtak. Flugmenn Ethiopian Airlines tilkynntu um sams konar erfiðleika áður en þotan steyptist snarbratt í jörðina.

Í bráðabirgðaskýrslu um Lion Air flugslysið er skuldinni að hluta til skellt á bilaðan áfallshornsnema sem kom MCAS-kerfinu af stað og neyddi flugvélina í dýfu. Flugmönnum sem flugu sömu þotu daginn áður tókst að ná yfirhöndinni í glímu við sjálfvirku flugkerfistölvurnar og ljúka ferðalaginu heilu og höldnu.

Boeing gagnrýnt

Eftir Lion Air slysið sætti Boeing gagnrýni fyrir að hafa látið milli hlutar liggja að vara flugmenn við virkni MCAS-öryggisbúnaðarins og fyrir að hafa ekki kallað eftir þjálfun í notkun hans. Komið hefur í ljós að í kjölfar slyssins kvörtuðu að minnsta kosti fjórir flugmenn bandarískra flugfélaga undan stýrikerfum MAX-8 þotunnar. Sögðu þeir allir, að flugvélin hefði skyndilega stefnt niður á við.

Í framhaldi af slysinu í Malasíu sendi Boeing félögum með 737 MAX 8 í rekstri ráðleggingar til flugmanna um hvernig ná mætti yfirhöndinni gagnvart MACS. Í tilkynningu í byrjun vikunnar sagði bandaríski þotusmiðurinn of snemmt að átta sig á orsökum hraps þotu Ethiopian Airlines.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Bloggað um fréttina

Greinakurlari
Glussastýrður greinakurlari fyrir traktor, www.hardskafi.is Sími 896 5486...
Greinakurlari
Greinakurlari sem drifinn er með bensínmótor. Öflugur og meðfærilegur kurlari w...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
Lítið sumarhús
Til leigu lítið sumarhús 25km. frá Akureyri, svefnpláss fyrir 2-4, WiFi- ljóslei...