Fjórir farþegar fluttir á sjúkrahús

Tekist hefur að halda skipinu stöðugu, en aftakaveður er á …
Tekist hefur að halda skipinu stöðugu, en aftakaveður er á svæðinu og ölduhæð mikil. AFP

Fjórir farþegar Viking Sky hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna beinbrota og skurða sem þeir hlutu um borð í skipinu eða við björgunaraðgerðir. Við vesturströnd Noregs er nú unnið að því að bjarga 1.300 farþegum frá borði skipsins sem rekur vélarvana aðeins nokkrum sjómílum frá landi.

Áður höfðu björgunaraðilar tilkynnt að átta hefðu hlotið minniháttar meiðsli um borð í skipinu. Enn sem komið er vita björgunaraðilar ekki til fleiri slysa á fólki og einskis er saknað. Búið er að manna alla tiltæka sjúkrabíla á svæðinu auk þess sem viðbragð hefur verið sett í gang á sjúkrahúsum.

Tekist hefur að halda skipinu stöðugu, en aftakaveður er á svæðinu og ölduhæð mjög mikil sem veldur því að björgunaraðilar eiga mjög erfitt með að athafna sig. Farþegum er meðal annars komið frá borði með þyrlum, en hægt er að hífa einn farþega upp í hverja þyrlu í einu og tekur hver þyrla um fimmtán manns í einu.

Misvísandi upplýsingar berast um það hversu mörgum hefur tekist að koma í land frá farþegaskipinu, en NRK greindi frá því að það væru að minnsta kosti hundrað.

Uppfært kl. 19:15: Viking Sky er ekki eina skipið sem á í vandræðum á þessum slóðum, en skammt frá hefur flutningaskip óskað eftir aðstoð, sem tefur enn frekar fyrir björgun farþega úr farþegaskipinu. Samkvæmt NRK hefur öryggi allra farþeganna þó verið tryggt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert