Trump fagnar endalokum kalífadæmisins

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fagnaði því í dag að kalífadæmi Ríkis íslams heyri nú sögunni til en forsetinn hét því að Bandaríkin muni vera á verði gagnvart heilögum stríðsmönnum, eða jíhadistum.

Sýrlensku lýðræðisöflin, sem njóta stuðnings bandarískra yfirvalda, lýstu yfir sigri gegn samtökunum í kjölfar bardaga í þorpinu Baghouz. Þar með lauk aðgerðum við að frelsa síðustu svæðin sem voru undir stjórn liðsmanna Ríkis íslams, en lokaaðgerðin stóð yfir í um hálft ár. Hryðjuverkasamtökin réðu um tíma mjög stórum landssvæðum bæði í Írak og í Sýrlandi, og voru um sjö milljónir manna undir þeirra yfirráðum. 

„Við munu halda vöku okkar [...] þar til þau verða gjörsigruð hvar sem þau starfa,“ sagði Trump í yfirlýsingu um samtökin. 

„Bandaríkin munu verja hagsmuni landsins hvenær og hvar sem er. Við munum halda áfram að starfa með bandamönnum okkar og brjóta á bak aftur alla íslamska hryðjuverkamenn.“

Trump beindi orðum sínum einnig til ungs fólks sem eigi í hættu að ganga til liðs við samtökin.

„Ég vil segja við allt unga fólkið sem er á netinu og trúir áróðri ISIS, þið munið deyja ef þið gangið til liðs við þau. Einbeitið ykkur frekar að því að lifa góðu lífi,“ sagði Trump og vísaði til Ríkis íslams.

Patrick Shanahan, starfandi varnarmálaráðherra Bandríkjanna, fagnaði einnig og sagði að þetta væru mikilvæg tímamót. Hann bætti þó við að starfinu væri hins vegar ekki lokið. 

„Við munum halda áfram að starfa með alþjóðsamfélaginu og koma í veg fyrir að ISIS-liðar geti fundið öruggt skjól einhversstaðar í heiminum.“ 

mbl.is
Greinakurlarar
Eigum til 15 hp greinakurlara með bensínmótor fyrir allt að 100mm greinar. Öflu...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Skurðarskífur
Eigum til góðar skurðarskífur 125mm*1mm, gott verð 120 kr stk með vsk. Uppl 77...