Verður skýrslan kynnt á morgun?

Samsett mynd sem sýnir þá Donald Trump, William Barr og …
Samsett mynd sem sýnir þá Donald Trump, William Barr og Robert Mueller. AFP

William P. Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, fór í dag, ásamt aðstoðarfólki sínu, yfir skýrslu Robert S. Mueller, sérstaks saksóknara, sem hefur rannsakað hvort framboð Donalds Trumps hafi átt í óeðlilegum og ólögmætum samskiptum við rússnesk stjórnvöld í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Barr stefnir að því að kynna helstu niðurstöður skýrslunnar fyrir þingmönnum og Trump á morgun. Ekki liggur fyrir hvenær hún verður kynnt fyrir fjölmiðlum og almenningi.

Fram kemur á vef The New York Times, að Barr og Rod J. Rosenstein, varadómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sem útnefndi Mueller og hafði yfirumsjón með rannsókinni, hafi haldið sig inni í dómsmálaráðuneytinu í dag þar sem þeir ræddu hvernig best væri að kynna niðurstöðurnar fyrir þinginu og forsetanum. Mueller var ekki viðstaddur þá umræðu að því er New York Times greinir frá, og hefur eftir ónefndum bandarískum embættismanni. 

Bandaríska þinghúsið í Washington.
Bandaríska þinghúsið í Washington. AFP

Það hefur vakið athygli að Trump hefur þagað þunnu hljóði í dag, þ.e. ekkert tjáð sig um það að Mueller hafi skilað inn skýrslunni í gær. Mánuðum saman hefur forsetinn gagnrýnt rannsóknina harðlega og kallað hana „nornaveiðar“ og að hún hlutdræg.

Trump er nú um helgina staddur á heimili sínu í Mar-a-Lago í Palm Beach á Flórída ásamt fjölskyldu sinni og óvenju fjölmennu liði aðstoðarfólks. Í dag hélt hann sig að mestu á golfvellinum og snæddi hádegisverð með tónlistarmanninum Kid Rock, að því er segir í umfjöllun NY Times.

Trump hefur veriið óvenju þögull í dag.
Trump hefur veriið óvenju þögull í dag. AFP

Mueller afhenti Barr skýrsluna í gær, og þar með lauk rannsókninni sem hefur staðið yfir í 22 mánuði. Auk þess að rannsaka hvort Rússar hefðu haft áhrif á kosningarnar 2016 og hvort aðstoðarmenn Trumps hefðu veitt Rússum aðstoð, þá rannsakaði Mueller hvort Trump hefði reynt að hindra framgang réttvísinnar með því að slá skjaldborg um sig eða bandamenn sína gagnvart þeim sem stóðu á bak við rannsóknina.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert