Battisti játar að hafa framið fjögur morð

Cesare Battisti sést hér umkringdur gæslumönnum eftir að hafa verið …
Cesare Battisti sést hér umkringdur gæslumönnum eftir að hafa verið á flótta í mörg ár. AFP

Fyrrverandi félagi í ítölskum skæruliðasamtökum, Cesare Battisti, sem afplánar lífstíðardóm fyrir fjögur morð sem hann var sakfelldur fyrir á áttunda áratug síðustu aldar hefur loksins játað að hafa framið morðin. Hingað til hefur hann alltaf neitað sök.

Battisti, sem er 64 ára gamall, var handtekinn í Bólivíu í janúar. Battisti var liðsmaður í samtökum Vopnaðra öreiga fyrir kommúnisma (ítalska: Proletari Armati per il Comunismo) sem voru virk á hinum svokölluðu „blýárum“ Ítalíu á áttunda áratugnum. Hann var handtekinn árið 1979 en flúði úr fangelsi tveimur árum síðar og slapp til Frakklands. Árið 1987 var hann dæmdur, að sér fjarverandi, í lífstíðarfangelsi fyrir ferfalt morð.

Battisti hafði síðustu ár verið búsettur í Brasilíu og hafði notið verndar þáverandi forseta landsins, Luiz Inácio Lula da Silva. Lula hafði ekki fallist á að framselja Battisti til Ítalíu en Michel Temer, sem var forseti þar til um áramótin, féllst á framsal hans í desember.

Cesare Battisti við komuna heim til Ítalíu í janúar.
Cesare Battisti við komuna heim til Ítalíu í janúar. AFP

Jair Bolsonaro, núverandi forseti Brasilíu, hafði gert handtöku og framsal Battisti að kosningaloforði í aðdraganda kjörs síns í fyrra. Battisti lagði á flótta eftir að Bolsonaro náði kjöri en var í fyrradag handtekinn í Bólivíu. Áætlað er að hann verði fluttur til Brasilíu og síðan framseldur til Ítalíu.

Framsal Battisti innsiglar bandalag ríkisstjórna Brasilíu og Ítalíu, sem báðar þykja popúlískar og hneigjast lengst til hægri. Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, var einn af fyrstu ráðamönnum Evrópu sem studdu framboð Bolsonaros opinberlega.

Battisti hefur neitað því að vera sekur um morðin og heldur fram að hann muni sæta pyntingum í fangelsi á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert