Lýsa lifandi helvíti

Yfir níu þúsund útlendingar, mest börn, sem tengjast vígasamtökunum Ríki íslams, eru í flóttamannabúðum í norðausturhluta Sýrlands.

Um er að ræða Al-Hol-búðirnar en Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur miklar áhyggjur af aðbúnaði fólks í búðunum. Yfir 6.500 börn tengd Ríki íslams eru í búðunum að sögn Luqman Ahmi, opinbers talsmanns kúrdískra yfirvalda. Ekki er um nýjar upplýsingar að ræða og má búast við að enn hafi fjölgað í búðunum eftir að Sýrlensku lýðræðisöflin (SDF) náðu yfirráðum yfir bænum Baghouz. Markaði það endalok kalífadæmis Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak.

Fyrir milljónir íbúa sem voru neyddir til þess að búa við stjórn Ríkis íslams var líf innan kalífadæmisins lifandi helvíti þar sem stúlkur voru seldar í kynlífsánauð, tónlist bönnuð og samkynhneigð dauðasök. 

Kalífadæmið náði aftur til ársins 2014 þegar vígasamtökunum tókst með undraverðum hætti að leggja undir sig stór landsvæði í Sýrlandi og Írak. Stærð þess var á við Bretland og íbúarnir yfir sjö milljónir talsins. Ekki er vitað um afdrif þúsunda íbúa sem voru notaðir sem mannlegir skildir og þrjú þúsund jazída er enn saknað. 

Seldar á þrælamörkuðum

Íbúarnir voru beittir ofbeldi og ekki síst þeir sem tilheyrðu minnihlutahópum eins og jazídar. Sameinuðu þjóðirnar hafa líkt meðferð þeirra á jazídum við þjóðarmorð. Þúsundum jazída var slátrað, einkum körlum og drengjum en konur voru numdar á brott ásamt stúlkum og þær seldar á þrælamörkuðum. Margar þeirra voru beittar kynferðislegu ofbeldi árum saman. 

„Við gerðum allt sem þeir kröfðust,“ segir Bissa Hamad, jazídi sem var seld sex sinnum áður en henni tókst að flýja. „Við gátum ekki neitað.“

Lærðu að telja byssur og sprengjur

Jazída-drengir sem ekki voru drepnir voru neyddir til þess að berjast og að hata sitt eigið samfélag. Börn sem fóru í skóla á vegum Ríkis íslam lærðu að telja byssur og handsprengjur í stærðfræði og myndir af fólki voru bannaðar. Vígasamtökin voru með sína eigin lögreglu sem mátti sekta og húðstrýkja fólk fyrir hin ólíku brot. Svo sem ef viðkomandi lyktaði af áfengi eða tóbaki. 

Bækur voru brenndar, dans og tónlist bönnuð. Þess í stað var áróðri vísasamtakanna útvarpað allan daginn. Ómetanleg menningarverðmæti voru eyðilög og harðar reglur giltu um klæðaburð. Jafnvel litlar stúlkur þurftu að klæðast svörtum fatnaði sem huldi allt nema augun. Skegg og hefðbundnir kjólar skylda fyrir karla.

Höfuðlaus lík hengd upp öðrum til viðvörunar

Vígasamtökin ráku sína eigin dómstóla þar sem fólk var dæmt til dauða. Aftökuaðferðin var afhöfðun og henging. Karlar og konur sem voru sökuð um að hafa drýgt hór voru grýtt til bana. Karlar voru skotnir til bana eða hent fram af húsþökum fyrir samkynhneigð.

Ríki íslams var jafnvel með eigin gjaldmiðil og þeir sem ekki gátu greitt skatta til Ríkis íslams voru fangelsaðir. 

Borgirnar Mosúl í Írak og Raqqa í Sýrlandi voru gerðar að höfuðborgum kalífadæmisins og þaðan voru árásir í öðrum löndum skipulagðar. Til þess að viðhalda ótta meðal almennings voru líkamar og höfuð þeirra sem voru teknir af lífi hengdir upp á almenningsstöðum. Sumir íbúar, til að mynda þeir sem voru ósáttir við fyrri yfirvöld, gengu til liðs við vígasamtökin en þeir sem ekki voru sáttir við nýja valdhafa hvíla margir í einhverjum þeim 200 fjöldagröfum sem vitað er um í ríkjunum tveimur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert